145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er grátlegt að verða vitni að því að það sem hefur einkennt tök núverandi stjórnarflokka á þessum málaflokki og þeirri uppbyggingu sem nauðsynlegt hefði verið að ráðast í strax í upphafi þessa kjörtímabils eru lausatök og kæruleysi. Það er engin tilviljun. Það er beinlínis grunnforsenda hugmyndafræði a.m.k. annars stjórnarflokksins að vera ekki með mikil ríkisafskipti, það sé á einhvern hátt neikvætt að skipta sér mikið af hlutunum og láta þá bara eiga sér stað á frjálsum markaði og af sjálfu sér, hlutirnir muni leysast með einhverjum hætti. Þetta kæruleysi og þessi lausatök skila okkur eyðileggingu á landi og miklu tjóni á innviðum þjóðfélagsins og náttúrunni. Þess vegna þurfum við að skipta um ríkisstjórn í þessu landi, það blasir við, og taka þetta miklu fastari tökum en gert hefur verið. Það verður ekki gert nógu fljótt.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, það er hægt með miðstýrðum hætti að veita fjármagn til þessara staða en þeir sem best þekkja til þeirra verkefna sem blasa við eru heimamenn. Það er eðlilegt að búa til einhvers konar kerfi þar sem menn geta innheimt á staðnum fyrir aðgang að svæðinu og fengið einhvers konar gjald. Auðvitað er eðlilegt að þeir sem fénýta staðina, flytja þangað ferðamenn, græða á náttúrunni, skili af þeim gróða einhvers konar auðlindagjaldi sem renni síðan til uppbyggingar á stöðunum þannig að tryggt sé að menn nýti féð með sjálfbærum hætti þannig að öryggi þeirra sem njóta sé tryggt, þannig að ekki sé lífshættulegt að koma á þessa staði, eins og er í sumum tilfellum. Það þarf að tryggja eftir fremsta megni aðgengi fyrir alla.