145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svara þessu síðasta fyrst. Eins og ég sagði í ræðu minni held ég að fyrirkomulagið með svæðisráðin hafi reynst mjög vel. Ég held að það sé einmitt lykillinn að því að berjast gegn þeim fordómum sem kannski hafa verið of miklir gagnvart hugmyndinni um þjóðgarð og að sú hugmynd felist fyrst og síðast í því að loka einhverjum tilteknum landsvæðum. Þetta tengist kannski líka umræðunni sem hv. þingmaður byrjaði á í andsvari sínu um ólíka hagsmuni mismunandi hópa og hvernig sú togstreita hefur birst okkur. Hún birtist okkur kannski best, ef maður tekur eitt dæmi, í þeirri ákvörðun Vatnajökulsþjóðgarðs að prófa lokanir á tilteknum svæðum á akstri um Vonarskarð við norðvesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs, á milli Bárðarbungu eiginlega og Tungnafellsjökuls, og síðan hinni svokölluðu Vikrafellsleið. Þetta mætti auðvitað mikilli andstöðu. Ég var einn af þeim sem voru þeirrar skoðunar að það væri sjálfsagt að skoða þessa lokun. Það væri ekkert sjálfgefið að menn gætu bara alltaf og hvenær sem er ekið hvar sem er og þegar þeim sýndist. En þegar til stykkisins kom og menn fóru að telja umferð gangandi á þessu svæði, þá er ég sérstaklega að tala um Vonarskarð, yfir eitt sumar voru ekki fleiri en 70 manns sem gengu þar þannig að það er kannski engin ástæða til þess að vera að loka sérstaklega á umferð jeppamanna um svæðið. Það eru ekki svo miklir árekstrar þar á milli. En auðvitað verða þessi ágreiningsmál ekki leyst öðruvísi en einmitt með aðkomu útivistarsamtaka, ferðafélaga o.s.frv., þannig að menn eigi aðgang að því borði þar sem ákvarðanir eru teknar í þessum efnum.