145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og hér er verið að gera ýmsar breytingar til batnaðar varðandi stjórnunarlega umgjörð þjóðgarðsins. Ég ætla bara að byrja á því að þakka nefndinni fyrir mjög ítarlegt og gott nefndarálit þar sem farið er yfir nauðsyn þess að skýra valdmörk á stjórn þjóðgarðsins, setja inn í löggjöfina nánari skilgreiningu á störfum og ábyrgð framkvæmdastjóra og breyttri skipan án þess að gengið sé á hugmyndafræðina sem skipulag þjóðgarðsins byggir á sem er valddreifing enda er mikilvægt að valdið á þróun hans liggi á svæðinu þar sem hann er. Þetta er víðfeðmasti þjóðgarður Íslands og er á Austurlandi, Suðausturlandi og nær til Norðausturlands. Þetta er mjög mikilvægt svæði fyrir okkur Íslendinga og mikilvægt að það sé skýrt hvernig fara á með stjórn þess.

Ég kem hér upp af því að ég tilheyri þeim meiri hluta þjóðarinnar sem vill að miðhálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Um það höfum við í Samfylkingunni flutt þingsályktunartillögu og þingflokkur Vinstri grænna hefur flutt sambærilega þingsályktunartillögu og síðan hefur verið undirrituð viljayfirlýsing náttúruverndarhreyfingarinnar, útivistarsamtaka og samtaka í ferðaþjónustu um að unnið verði að þessu verkefni og litið svo á að það sé stórt skref í átt til aukinnar náttúruverndar á Íslandi og til að tryggja áframhaldandi ósnortin víðerni sem laða hingað fjölda fólks til að upplifa náttúru Íslands.

Svo vil ég benda á að miðhálendið hefur mjög mikið gildi sem náttúrusvæði og hefur gildi sem hluti af íslenskri ferðaþjónustu en varðar líka sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Þetta svæði skiptir okkur miklu máli. Ég hef vart komið upp á miðhálendið, og það á við um mjög marga aðra, en miðhálendið er greypt í meðvitund okkar og er hluti af sjálfsmynd okkar, að eiga þessi stærstu, ósnortnu víðerni Evrópu. Okkur ber að standa vörð um þau og okkur ber að skila þeim ósnortnum áfram til komandi kynslóða.

Það eru virkjanir sem ná inn á þetta svæði eða eru í kanti þess og við verðum að passa að við göngum ekki lengra í þeim efnum. Okkur ber hreinlega skylda til þess. Okkur ber skylda til þess við Íslendinga framtíðarinnar og við eigum líka að fá svæðið inn á heimsminjaskrá UNESCO því að þetta er eins og ég hef komið inn á, frú forseti, algjörlega einstakt svæði. Þegar gerð var könnun í apríl 2015 um það hvort fólk vildi þjóðgarð á miðhálendinu — af því að ég vísa í sjálfsmynd Íslendinga — voru 60% aðspurðra fylgjandi því en eingöngu 13% andvíg. Það er mikill meirihlutavilji til þess að við verndum þetta svæði. Þess vegna vil ég, líkt og flokkssystir mín Katrín Júlíusdóttir gerði áðan, hvetja ríkisstjórnina til að fara í skilgreiningar á því hvaða svæði eigi að teljast til hins nýja miðhálendisþjóðgarðs. Ég harma reyndar að ekki hafi verið tekið betur á móti viljayfirlýsingu þessara stóru samtaka sem láta sig náttúru Íslands varða og aðgengi að henni og að vinna sé ekki hafin á þessu mikilvæga verkefni.

Heimsóknir í þjóðgarðinn aukast samhliða fjölgun ferðamanna. Mörg af þessum svæðum eru líka ástsæl svæði Íslendinga sem við heimsækjum gjarnan í sumarfríunum okkar en ég fagna sérstaklega nýjum ákvæðum um samninga vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum. Það er mjög mikilvægt ákvæði til að vinna að verndarmarkmiðum laganna og nauðsynlegt tæki til að stýra ágangi á náttúru þjóðgarðsins á sjálfbæran hátt. Það er mjög ánægjulegt að þetta sé komið þarna inn og við verðum að passa þessi dýrmætu svæði og gera okkur grein fyrir þeirri ábyrgð sem okkur sem byggjum þetta land á þessum tíma er falin við að vernda það til framtíðar.

Síðan kemur að fjárframlögum til þjóðgarðsins sem eru af allt of skornum skammti í anda þess hvernig þessi ríkisstjórn hefur leikið hina mikilvægu atvinnugrein ferðamannaiðnaðinn. Algjört stefnuleysi hefur valdið því að við stjórnum ekki nægilega markvisst umferð um landið, byggjum ekki upp nýja staði og tryggjum ekki að þeir sem fyrir eru verði ekki fyrir of miklum átroðningi. Það er nauðsynlegt að auka fjármagn inn í þjóðgarðinn til innviðauppbyggingar. Það á við um Vatnajökulsþjóðgarð sem og allar náttúruperlur Íslands. Margar þeirra bera þess merki að þar er allt of mikill átroðningur. Það er nauðsynlegt að vera með meiri uppbyggingu á þessum svæðum til að vernda náttúruna, sem sagt uppbyggingu á aðstöðu fyrir gesti, en það verður líka að fjölga þeim stöðum sem draga til sín gesti til að minnka álagið á þeim stöðum sem fyrir eru. Um leið og þetta litla frumvarp er framfaraskref fyrir framtíð Vatnajökulsþjóðgarðs er þetta hænuskref því að við þurfum að gera svo miklu meira. Lagaramminn þarf að vera skýr og það er gott en það þarf allsherjarstefnu á sviði ferðamála, það þarf kjark til gjaldtöku enda algjörlega óeðlilegt að það sé ekki vilji til gjaldtöku af ferðamönnum umfram það sem nú er. Það þarf að veita fjármuni til uppbyggingar.

Það er svo skrýtið að þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer með völd virðist hann vilja forðast ríkisafskipti af því almenna og af því sem við eigum öll saman en síðan er pilsfaldakapítalisminn alls ráðandi í atvinnulífinu þar sem markaðsöflin ættu að fá að hafa sinn gang með sterkri samkeppnislöggjöf og eftirliti. Það er furðulegt að misskilja svona hugmyndafræðina um markaðsbúskap því að náttúruvernd og almannaþjónusta á sviði heilbrigðis- og menntamála á að vera í höndum sterks ríkisvalds. Síðan á atvinnulífið að keppa á forsendum samkeppni.

Meðferð ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum og nýir búvörusamningar sýna að hægri stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks skilur ekki kapítalismann sem þau þykjast þó gjarnan vera málsvarar fyrir. Við hin sem leggjum upp úr jöfnuði og samfélagi fyrir alla frábiðjum okkur þessi vinnubrögð og ætlumst til þess að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga standi vörð um almannahagsmuni. Hluti af því er að tryggja að atvinnugrein sem stækkar jafn ört og ferðaþjónustan sé með skýrar leikreglur og að af henni sé aflað þeirra tekna sem hún í raun og veru skapar. Ferðaþjónustan nýtir mikilvæga náttúruauðlind, náttúruauðlindina ósnortin íslensk náttúra. Það er eðlilegt að við sem byggjum þetta land njótum aukins áhuga á þessari dýrmætu auðlind okkar.

Að þessu sögðu, frú forseti, vil ég segja að þetta frumvarp er ágætt eins langt og það nær og mikilvægt skref í því að efla Vatnajökulsþjóðgarð en þá dugir ekki lagarammi því að það eru fjármunirnir sem inn í þjóðgarðinn er veitt sem skipta sköpum um það hvort hann nær að eflast og blómstra eða hvort við munum sitja uppi með allt of víðfeðm svæði sem verða illa leikin af átroðningi.