145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir góðar spurningar. Já, stefna á sviði ferðamála. Annars vegar erum við að tala um gjaldtökuna og hins vegar um stefnumörkun og hvernig við ætlum að láta greinina þróast. Eins og hv. þingmaður bendir á þá er það æðialgengt að fólk komi hingað á höfuðborgarsvæðið og fari síðan ferðir út frá höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt að þróa fleiri slíka kjarna á Íslandi sem hægt er að ferðast út frá og byggja upp þróun um það, skoða hvað við þurfum mörg gistirými á hverjum stað og hvað er heppilegt í þeim efnum. Þau mega ekki vera of fá en þau mega heldur ekki verða allt of mörg. Við þurfum að stýra betur umferð um landið. Það tókst hér í tíð síðustu ríkisstjórnar að búa til átakið Ísland allt árið sem hefur valdið því að við nýtum miklu, miklu betur fjárfestingar í greininni yfir lengra tímabil ársins, nærfellt allt árið núna í stað þess að það væri bara yfir sumarmánuðina. Það er slík stefna sem við höfum kallað eftir á kjörtímabilinu. Aðallega segir nú hæstv. ráðherra okkur að hún sé að stilla saman strengi. Ég vil fara að sjá hvað sú stilling er að gefa af sér.

Þegar kemur að gjaldtökunni er ég sannfærð um að við eigum að taka upp komugjöld hér á landi því að það er mjög skilvirk gjaldtaka. Þá greiða ferðamenn, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, fyrir komuna til landsins. Þannig fáum við inn fjármuni til þess að styrkja uppbyggingu atvinnugreinarinnar og tekjur í ríkissjóð af þessari mikilvægu atvinnugrein sem við höfum auðvitað einhverjar tekjur af. Síðan kem ég kannski í síðara andsvari inn á sveitarfélögin og þeirra hlut.