145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé ágætisviðmið sem hv. þingmaður nefndi, að allt sem er hærra en Himmelbjerget í Danmörku skuli vera almenningseign og mættu heita býsna augljós rök fyrir því. Það er í raun og veru fráleitt að menn haldi því fram að heilu og hálfu jöklarnir séu í einkaeigu einhverra. Það er ástæða fyrir því að kornakur er í einkaeigu, það er vegna þess að það þarf að rækta hann og verja hann og það lætur einkaeign betur, það hentar betur þegar einstaklingur sinnir landinu og þarf að tryggja að verðmæti sem þar eru haldist og verði jafnvel meiri. Sama á við um akra og tún og annað ræktarland en þau sjónarmið eiga ekkert við um fjöll og auðvitað eigum við fjöllin á Íslandi. Þannig er það. Við eigum að tryggja að það sé þannig líka að forminu til.

En varðandi spurninguna um skipulag þjóðgarðsins þá held ég að með því að hafa eina þjóðgarðsstofnun geti það leitt til þess að það verði engu að síður stjórn heima í héraði og jafnvel meiri en ella vegna þess að það er þá fyrst og fremst heildarsýnin, yfirsýnin eða heildarstefnumörkunin sem er miðlæg en forræði hvers staðar kannski þeim mun meira.