145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef einfalda skoðun á því, ég tel að það eigi að nota gistináttagjaldið, það eigi að hækka til þess að það geti staðið undir því sem þarf að gera og einfaldlega bara fara í það. Það er ekki flóknara í mínum huga. Ég hef ekki verið talsmaður þess að Ísland skipi sér í hóp þeirra landa sem þarf að borga aðgangseyri til að komast inn í. Við þekkjum það kannski einkum frá vanþróaðri löndum. Ég vil að fólk geti komið til Íslands án þess að borga fyrir það sérstakt gjald. Það er hins vegar alþekkt að það séu gistináttagjöld eða hótelskattar af einhverju tagi sem renna sérstaklega til verkefna tengdra ferðaþjónustu. Ég held að við eigum að notast við það alþjóðlega fyrirbæri sem þekkist bæði austan hafs og vestan. Svo finnst mér allt í lagi að fólk borgi fyrir að leggja bílunum sínum, en ég vil ekki hafa gjaldtökuskúra út um allt land þar sem verið er að rukka 500 kall hér og 500 kall þar fyrir ekki neitt heldur reyna að nálgast þetta einfaldlega í gegnum eina aðferð við gjaldtöku, alþjóðlega viðurkennda aðferð, gistináttagjald sem við rukkum þegar og getur skilað þeim tekjum sem þarf til uppbyggingar. Það á einfaldlega að hækka það og fara í uppbygginguna og hætta að tala illa um ferðamennina sem eru ekkert annað en fórnarlömb í því aðstöðuleysi sem framtaksleysi ríkisstjórnarinnar hefur leitt af sér.