145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[17:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega gleðistund þegar við fáum að ræða jafn skemmtilegt málefni og þjóðgarða og hvernig við verndum íslenska náttúru. Ég fagna því eindregið að hér sé verið að stíga það skref sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd gerir í sameiningu eins og kemur fram í nefndarálitinu sem sú sem hér stendur skrifar einnig undir. Þetta er mjög góð breyting. Það var mikil vinna sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd fór í til þess að koma málinu í þá mynd og þá sátt sem nú ríkir varðandi það. Auðvitað er það alltaf þannig þegar um kerfisbreytingu er að ræða, eins og er í raun verið að gera hér með því að breyta því hvernig stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er, að þá verða náttúrlega alltaf einhverjir ekki fullkomlega sáttir, en það verður bara að liggja milli hluta á meðan við fetum okkur áfram í þessu kerfi.

Mig langar sérstaklega til þess að fagna því að með frumvarpinu munu valdheimildir þjóðgarðsvarða aukast almennt. Ég tel þetta vera eitthvað sem við þurfum í raun og veru að skoða betur og á miklu heildstæðari hátt í þinginu hvert valdsvið þjóðgarðsvarða er þegar kemur t.d. að miðhálendisþjóðgarði, Þingvallaþjóðgarði og náttúrlega Vatnajökulsþjóðgarði. Ég held að í raun þurfi að víkka það umfram það sem er gert hérna. Þjóðgarðsverðir eru eins konar verndarar náttúrunnar á þessum vinsæla ferðamannastað og ég tel alveg nauðsynlegt að þeir hafi skýr valdmörk og skýr völd til þess að vernda náttúruna.

Ég verð einnig að fá að lýsa áhyggjum af stöðu mála þegar kemur að öllum innviðum við Vatnajökulsþjóðgarð. Það er löngu orðið tímabært, virðulegi forseti, að Alþingi taki sig til og búi til heildstæðan ramma utan um fjárveitingar til innviða í íslenskri náttúru. Þarna eru einar mestu og frábærustu náttúruperlur sem jörðin á. Ísland er einstakt þegar kemur að því. Það er kominn tími til þess að varið sé rausnarlegu fé í þennan málaflokk ekki síst þar sem ferðamannastraumurinn er svo gífurlegur, sérstaklega á Suðurlandi.

Það er skemmst frá því að segja og ég held að öllum sé fullkunnugt um það að vegurinn frá Kirkjubæjarklaustri og austur er varla tvíbreiður og til þess að skoða þær náttúruperlur sem tilheyra Vatnajökulsþjóðgarði þarf að fara um þann veg. Við erum að tala um að það skoða jafnvel þúsundir manna á dag náttúruperlur á borð við Jökulsárlón og fleiri þegar mest lætur og það er alveg til skammar þegar kemur að umferðaröryggi og öryggi ferðamanna á þessum svæðum hvernig málum er háttað. Það er kominn tími til þess að ríkisstjórnin taki sig aðeins saman í andlitinu og veiti þeim mikilvæga iðnaði sem ferðamannaiðnaðurinn er það sem þarf í þá innviðauppbyggingu sem er löngu orðin tímabær.

Það kemur einmitt fram í nefndaráliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar að fjölga þurfi starfsmönnum þjóðgarðsins sem vinna á starfssvæði hans. Þetta er náttúrlega víðfeðmt svæði og ekki mjög auðvelt að fara þar í gegn. Það er því mjög skiljanlegt að við þurfum fleira fólk til þess að sinna því eftirliti og þeirri vernd sem okkur ber í raun siðferðisleg skylda til að sinna gagnvart náttúrunni og gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum og standa vörð um. Ég fagna því að þetta sé sérstaklega tekið fram í álitinu og vona virkilega að við förum að taka okkur saman í andlitinu og gera eitthvað. Við tölum alltaf mikið um að það vanti peninga til innviðauppbyggingar í ferðaþjónustunni og til að vernda Vatnajökulsþjóðgarð eða hvaða þjóðgarð sem er eða náttúru Íslands, en síðan höfum við ekki erindi sem erfiði. Það er ekki hægt að sjá í samgönguáætlun, sem kemur nú inn allt of seint og er eitthvað að þvælast í nefnd, að farið verði í einhverjar gagngerar breytingar á þessu. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða, virðulegi forseti.

Eins gott og þetta frumvarp er og eins góð og vinna hv. umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið þá er það bara eitt púsl í miklu stærra púsluspili. Til þess að þetta gangi allt saman upp þá þurfum við fyrst og fremst fjármagn. Það þarf að fjölga starfsfólki. Það þarf skýrari valdheimildir fyrir þjóðgarðsverði til þess að sekta fólk ef svo ber undir af því að mér finnst að náttúran eigi að fá að njóta vafans þegar kemur að þessu málefni þar sem þetta er alveg einstök náttúruperla sem við munum svo sannarlega sjá eftir ef illa fer. Ekki síst langar mig til þess að leggja áherslu á þá innviðauppbyggingu sem er algjörlega nauðsynlegt að eigi sér stað við Jökulsárlón. Þarna er einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi. Ég held að það sé kominn tími til þess að hæstv. forsætisráðherra í fararbroddi leiði þá vinnu sem þarf til að stuðla að þeirri innviðauppbyggingu og ég treysti á að hann muni beita sér fyrir því að þau fjárframlög sem svo sannarlega þarf í þennan málaflokk verði veitt í framtíðinni.