145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

meðferð sakamála og meðferð einkamála.

660. mál
[17:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er með þeim einfaldari málum sem við ræðum í dag, mál sem snýst um að laga einfalda mótsögn við stjórnarskrá í lögum. Margir í samfélaginu hneykslast mikið þegar sett eru lög sem fara í bága við stjórnarskrá og alveg með réttu þótt afleiðingar slíks séu ekki alltaf þær sömu. Í þessu tilfelli er reyndin sú að þar sem ákvæðið í lögum stenst ekki 2. gr. stjórnarskrárinnar hafa lögin einfaldlega ekki það gildi sem löggjafinn ætlaði sér á sínum tíma. Það sem mig langar til að nefna við þetta tækifæri í samhengi við þetta er mikilvægi þess að bæta vinnubrögð Alþingis þegar kemur að samræmi við stjórnarskrá. Þá meina ég almennt.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er að finna í 62. gr. ákvæði um svokallaða Lögréttu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.

Þingnefnd eða 1/5 hluti alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum.“

Þótt ég átti mig á því að frumvarp stjórnlagaráðs sé af einhverjum ástæðum ekki jafn umtalað í samfélaginu og maður mundi halda og við í Pírötum almennt höldum að væri eðlilegt, er í frumvarpi stjórnlagaráðs ógrynni af hlutum sem eru algjörlega þess virði að ræða um og þá sér í lagi í samhengi við mál eins og þessi þar sem um er að ræða breytingu sem var gerð á lögum án þess að neinn hafi tekið eftir því að hún væri ekki í samræmi við stjórnarskrá, nánar tiltekið 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Mér til gamans, já, til gamans, fletti ég upp í umsögnum frá málinu frá 141. þingi þegar þessi breyting var gerð og ég kom hvergi auga á að nokkur hafi minnst á að þetta væri vandamál, enda býst ég fastlega við að nefndin hefði brugðist við því á þeim tíma. En það finnst mér ekki leysa vandamálið. Mér finnst og tel líklegt að ef menn væru almennt með það fyrirkomulag sem er tilgreint í 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs, um Lögréttu, mundi þingnefnd sem fjallaði um svona mál, á 141. þingi eða 145. eða hvaða þingi sem er, biðja um álit Lögréttu. Ég hygg að það væri þá tryggari hluti af löggjafarferlinu að tryggja samræmi við stjórnarskrá.

Hinn ágæti hv. 2. þm. Reykv. s., Vigdís Hauksdóttir, hefur einnig talað fyrir lagaskrifstofu Alþingis sem ætluð er samkvæmt þeim hv. þingmanni til að tryggja betra samræmi við stjórnarskrá og vandaðri löggjöf. Það að Alþingi klikki á því að setja lög í samræmi við 2. gr. stjórnarskrárinnar sem varðar aðskilnað dómsvaldsins og framkvæmdarvaldsins er kannski ekki alvarlegt í þessu tilfelli vegna þess að það hefur einfaldlega áhrif á hvað lögin þýða en hefur ekki einhverjar hræðilegar afleiðingar í sjálfu sér á réttindavernd annarra. Við erum hér einfaldlega að uppfæra lögin í samræmi við reyndina sem er afleiðing dóms Hæstaréttar í málinu um gildi þessara klausna gagnvart 2. gr. gildandi stjórnarskrár.

Ég hygg að alltaf þegar við ræðum dómskerfið almennt þurfum við að hafa svolítið meira vakandi auga fyrir þessum atriðum. Það kemur enn fremur í ljós, yfirleitt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hvar ég sit, þegar við tölum um dómskerfið, þá kemur alltaf mikil gagnrýni fram. Seinast þegar við afgreiddum lög um dómstóla var tilgreint hér að þetta væri áframhaldandi verkefni sem er ekki lokið og að mínu mati verður ekki lokið í einhvern tíma vegna þess að gagnrýnin kemur frá fyrrverandi dómurum, jafnvel núverandi dómurum, og lögmönnum sem starfa þar innan og auðvitað aragrúa af fólki sem hefur haft einhver kynni af kerfinu og er ekki sátt við niðurstöðuna eins og búast má við. Mér finnst að það eigi að vera ákveðin áminning fyrir okkur hér að við afgreiðum þetta mál. Þótt þetta sé léttvægt að þessu sinni hefði það getað verið alvarlegra. Um ræðir 2. gr. gildandi stjórnarskrár. Þetta varðar þrískiptingu valdsins, dómsvalds og framkvæmdarvalds í þessu tilfelli. Það ætti að vera frekar augljóst og borðleggjandi, maður hefði haldið í fyrsta lagi að löggjafinn mundi fatta þetta sjálfur, þ.e. Alþingi, á 141. þingi. Maður mundi halda að nefndin hefði fattað þetta, að einhver umsagnaraðili hefði fattað þetta og bent á það og að í kjölfarið hefði nefndin lagað það enda ekki erfitt að laga. Með hliðsjón af því hvað auðvelt er fyrir marga að gera lítið úr umræðu um frumvarp stjórnlagaráðs finnst mér alveg við hæfi að minnast á það við þetta tækifæri að pælt hefur verið í þessum hlutum. Það hafa komið fram tillögur um að bæta þetta löggjafarferli. Sú tillaga finnst m.a. í 62. gr. frumvarps stjórnlagaráðs, nokkuð sem við ættum að ræða hér miklu oftar að mínu mati og ég geri það nú við þetta tilefni af þeirri ástæðu.

Síðan er hugsanlega hægt að bæta þessa hugmynd um Lögréttu eitthvað, en ég held og hef lengi reyndar verið þeirrar skoðunar að þegar kemur að störfum Alþingis sé 62. gr. í frumvarpi stjórnlagaráðs sennilega eitt af því sem mundi bæta þingstörfin hvað best, vissulega þegar kemur að samræmi við stjórnarskrá, sem ég mundi halda að væri með því mikilvægasta sem við þurfum að passa hér á bæ.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, virðulegi forseti. Það er erfitt að vera á móti þessu máli, eða ómögulegt, enda mjög einföld breyting en það gefur okkur ærið tilefni til þess að ígrunda hvað fór úrskeiðis, þótt lítið hafi verið í þetta sinn, og íhuga þær tillögur sem hafa verið bornar fram til úrbóta á svona efnum.