145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, barnalífeyrir.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Vilborgu Davíðsdóttur frá Ljónshjarta, Öglu K. Smith frá Tryggingastofnun ríkisins, Elísabetu Gísladóttur frá umboðsmanni barna og Þyrí Höllu Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmann. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Barnaheillum, Ljónshjarta, Tryggingastofnun ríkisins og umboðsmanni barna.

Í 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, segir að Tryggingastofnun ríkisins skuli greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað. Með frumvarpinu er lögð til viðbót við málsgreinina þess efnis að hið sama gildi liggi fyrir að feðrað barn sé móðurlaust af annarri ástæðu en þeirri að móðir hafi fallið frá. Í greinargerð með frumvarpinu segir að það geti átt við hafi faðir eignast barn með aðstoð staðgöngumóður annars staðar en á Íslandi og hafi einhleypur karl ættleitt barn.

Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar studdu almennt frumvarpið. Þó var bent á að barn teldist ekki móðurlaust að íslenskum lögum þótt það hefði verið alið af staðgöngumóður þar sem kona sem elur barn getið með tæknifrjóvgun telst móðir þess samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnalaga, nr. 76/2003.

Að mati meiri hlutans eiga börn að eiga rétt til framfærslu án mismununar vegna stöðu foreldra eða tengsla þeirra við foreldri. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að breyta 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar á þann veg að ákvæðið eigi við sé ekki unnt að tilgreina annað foreldri barns, hvort sem það er faðir eða móðir þess. Meiri hlutinn telur einnig réttmætt að ákvæðið eigi við þegar barn hefur verið alið af staðgöngumóður, þótt hún teljist móðir þess að lögum, enda ótvírætt að hennar nýtur ekki við við framfærslu barnsins. Meiri hlutinn leggur því til að 1. gr. frumvarpsins verði samþykkt með þessari breytingu til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi við ef móðir barns er staðgöngumóðir.

Þrátt fyrir framangreint vill meiri hlutinn árétta að staðgöngumæðrun er óheimil samkvæmt íslenskri löggjöf. Staðreyndin er engu að síður sú að slíkar aðstæður eru uppi þar sem móður nýtur ekki við vegna slíkra óvenjulegra og sérstakra aðstæðna. Meiri hlutinn vill á engan hátt mismuna börnum sem koma í heiminn við þær kringumstæður og telur að þau eigi að hafa sama rétt til framfærslu og önnur börn óháð stöðu foreldra eða tengsla barna við foreldri. Styður meiri hlutinn þar af leiðandi afgreiðslu frumvarpsins.

Ljónshjarta og umboðsmaður barna lögðu til viðbót við 20. gr. laga um almannatryggingar sem felur í sér að Tryggingastofnun ríkisins greiði sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Þau bentu á að samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnalaga væri heimilt að úrskurða þann sem meðlagsskyldur er til að inna af hendi slíkt framlag vegna barns. Meiri hlutinn telur framkomnar athugasemdir frá Ljónshjarta og umboðsmanni barna áhugaverðar og til þess fallnar að minnka mismunun barna eftir stöðu foreldra. Engu að síður er það álit meiri hlutans að þessar breytingar verði að koma fram í sérstöku þingmáli sem fái fulla þinglega meðferð. Meiri hlutinn leggur því ekki til sérstakar breytingar þar að lútandi.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. gr. orðist svo:

Í stað orðanna „barn verði ekki feðrað“ í 4. mgr. 20. gr. laganna kemur: ekki sé unnt að tilgreina annað foreldri barns. Hið sama gildir þegar skilríki liggja fyrir um að staðgöngumóðir sé móðir barns.

Sú sem hér stendur var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Páll Valur Björnsson og Steingrímur J. Sigfússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita hv. þingmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, sú sem hér stendur, Elsa Lára Arnardóttir og Ásmundur Friðriksson.