145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel og það er mín skoðun að það gangi ekki upp að samþykkja frumvarpið með þessum tilbúnaði. Það verður þá að reyna að fara einhverja aðra leið til að mæta þessum hópi barna. Hv. þingmaður sagði að reynt hefði verið að finna annað orðalag en það ekki tekist til að komast fram hjá því að nefna staðgöngumæðrun. Ég get bara ekki fengið það til að ganga upp í mínum huga, þó svo hér sé verið að leita leiða til að tryggja jafnrétti barna, að við tökum upp eitthvað sem nú þegar er bannað með lögum. Ég mundi þá alla vega leggja það til að þetta mál verði látið bíða, taka annan snúning á það. Ég held að það verði bara mjög erfitt fyrir framtíðarumræðu og mjög slæmt að fara að skjóta staðgöngumæðrun inn í kerfið án þess, líkt og ég sagði í ræðu minni, að ræða það í fullu samhengi hlutanna. Það kann vel að vera að það sé ekki nóg að fjalla eða taka þessa viðbót við 20. gr. laganna, en líkt og ég sagði áðan á ég ekki sæti í nefndinni og mér gafst því ekki tækifæri til að fylgjast með allri þessari umræðu. En ég endurtek aftur, mér finnst það þá frekar vera (Forseti hringir.) réttari endir til að byrja á, vegna þess að ég vil svo sannarlega (Forseti hringir.) jafna stöðu barna. En ég get bara ekki séð að þetta geti verið rétta leiðin að því.