145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda áfram á sömu nótum. Ég er mikið að velta fyrir mér staðgöngumæðrun sem frumvarpið fer óhjákvæmilega inn á. Síðan er annað þingmál sem var lagt fram um að heimila staðgöngumæðrun í velferðarskyni. Það frumvarp tel ég alls ekki vera til neinna bóta því að mér finnst það í raun vera verri hliðin á báðum skoðunum. Mér finnst það hvorki þjóna þeim sjónarmiðum sem eru gegn því að heimila staðgöngumæðrun né þeim sem eru því hlynnt.

Eftir að hafa rætt þessi mál hér og þar í nefndum hefur mér fundist umræðan um staðgöngumæðrun vera á röngum stað. Við erum alltaf einhvern veginn að diskútera hvað okkur finnst persónulega siðferðislega í lagi, og ýmsar áhyggjur koma upp sem eru lögmætar, eins og fjölskylduþrýstingur og því um líkt. Það er auðvitað heljarinnar umræða sem við förum ekki út í hér í andsvörum þótt ég íhugi reyndar að halda hérna stutta ræðu um málið af þessum ástæðum.

En eftir stendur að mér finnst við gleyma aðalatriðinu yfirleitt þegar kemur að staðgöngumæðrun, það eru réttindi barnanna. Ég fæ ekki betur séð en að svo lengi sem við höfum lagasetningu um að staðgöngumæðrun sé óheimil og að lagatextinn eigi ekki að viðurkenna það sem eitthvert norm eða í það minnsta eitthvað löglegt, muni sú afstaða koma niður á réttindum barna. Ég fæ ekki betur séð en svo og ég styrkist í þeirri trú eftir að hafa lesið umsagnir Barnaheilla, Ljónshjarta og umboðsmanns barna við málið.

Þess vegna velti ég fyrir mér: Er þetta mál ekki í raun rökstuðningur fyrir því að við verðum að heimila staðgöngumæðrun jafnvel þótt okkur sé siðferðislega í nöp við fyrirbærið? Hún á sér stað hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Eru ekki réttindi barnanna mikilvægari en persónuleg afstaða okkar til staðgöngumæðrunar?