145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru risastórar siðferðilegar spurningar sem vakna í tengslum við þetta mál líkt og hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu. Ég held að það verði alltaf mjög erfitt að tryggja réttindi barns, og réttindi þess og sýn okkar á staðgöngumæðrun munu togast á. Ég held að við komumst ekki hjá því að erfiðar siðferðilegar spurningar munu kvikna í þessum efnum. Ég held þess vegna að það sé svo mikilvægt þegar við tökum umræðuna um staðgöngumæðrun, hvenær það svo sem verður, að við tökum hana frá grunni og það verða ekki komnar einhvers konar glufur þar sem búið er að normalísera staðgöngumæðrun á ákveðinn hátt, eins og mér finnst vera gert í þessu lagafrumvarpi. Ég held að með samþykkt þessa frumvarps verðum við strax búin að færa umræðuna á annan stað. Ég held að það verði málinu ekki til góðs og að það sé í rauninni ekki gott að ræða þetta mál í einhverjum bútum. Ég átta mig alveg á því að frumvarpið mun ekki taka á réttindum og stöðu þessara barna, (Forseti hringir.) en ég held að við færumst ekki á betri stað með því að ætla að gera það hér.