145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandi minn er kannski helst sá að ég fæ ekki betur séð en að Barnaheill og Ljónshjarta, samtök til stuðnings yngra fólki sem misst hefur maka sinn, og börnum þess, og umboðsmaður barna séu ósammála hv. þingmanni um hvort frumvarpið sé til bóta eða ekki, þ.e. fyrir réttindi barnanna.

Ég sé í raun og veru bara þrjár leiðir. Tvær hugnast mér í sjálfu sér ágætlega. Ein hugnast mér ekki. Hún er sú að að hafna þessu fyrirbæri, staðgöngumæðrun, og þá leyfa þeirri afstöðu að koma niður á réttindum barna. Mér finnst það ekki ganga upp.

Önnur leiðin er að heimila staðgöngumæðrun, þá væntanlega með einhverju regluverki, ég geri ráð fyrir að það væri svona skandinavísk meðhöndlun á því. Með öllu sem því fylgir og öllum þessum risaspurningum og væntanlega frekar ítarlegum svörum við þeim risaspurningum þegar kemur að staðgöngumæðruninni sjálfri.

Ég sting upp á að þriðja leiðin verði sú að við gerum eitthvað svipað og við reynum að gera, eða teljum okkur trú um að við ætlum að gera gagnvart vímuefnaneyslu. Lagatæknilega séð er varsla á vímuefnum til einkaneyslu er ólögleg. En ef t.d. einhver sem notar vímuefni er í vímu og vantar aðstoð lögreglunnar tel ég að viðkomandi hafi rétt á lögregluaðstoð þrátt fyrir að viðkomandi hafi brotið lög. Það er vegna þess að við teljum okkur trú um að við höfum tekið afstöðu til þess að fólk hafi réttindi þrátt fyrir að hafa brotið lög.

Mér finnst svolítið þegar kemur að börnum í þessari umræðu að við þurfum að hugsa með okkur að sama hvað okkur finnst um staðgöngumæðrun verðum við að leyfa réttindum barnanna að hafa forgang. Ef það þýðir ósnyrtilega löggjöf, þ.e. löggjöf sem hafnar staðgöngumæðrun í sjálfu sér en gerir hins vegar ráð fyrir því að staðgöngumæðrun eigi sér stað og að börnin eigi samt að hafa einhvern rétt, tel ég (Forseti hringir.) þá leið mun skárri en að hafna staðgöngumæðrun með öllu (Forseti hringir.) og hafa lögin þannig að þau bitni á réttindum barna.