145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnast þetta áhugaverðar hugleiðingar hjá hv. þingmanni og er svo fyllilega sammála því að þetta séu mikilvæg mál. Réttindi barna eru alveg gríðarlega mikilvæg. Ég er jafnframt á þeirri skoðun að það skipti máli í heildarsamhenginu hvernig við nálgumst málið og tökum á því. Ég get eiginlega ekki annað en endurtekið að ég hef áhyggjur af því að verði þetta samþykkt verði það ekki málinu til góðs, þ.e. réttindum barna, nema að mjög litlu leyti því að það getur af sér aðrar erfiðar spurningar sem við þurfum einhvern tímann að takast á við. En þar sem mér er umhugað um réttindi barna mundi ég segja: Tökum annan snúning á þessu og vitum hvort ekki sé hægt að finna aðra aðferð en þá að skjóta staðgöngumæðruninni þarna inn. Það hljóta að vera einhverjar fleiri leiðir til þess að tryggja réttindi allra barna.

Tökum hina stóru siðferðilegu umræðu einhvern tímann seinna en laumum ekki inn einhverju sem breytir stöðunni varðandi staðgöngumæðrun í frumvarpi sem lætur mjög (Forseti hringir.) lítið yfir sér og örfáir þingmenn taka þátt í umræðu um.