145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að langflestir foreldrar sem ákveða að nýta sér staðgöngumæðrun séu meðvitaðir um að hún sé bönnuð samkvæmt lögum. Það sem ég átta mig hins vegar ekki á er hvernig við getum framfylgt því banni án þess að það komi niður á hagsmunum barnsins, því að væntanlega viljum við ekki refsa þeim sem eru ekki sekir um lögbrotið. Það eru foreldrarnir sem brjóta lögin. Það er ekki barnið sjálft. Það er þar sem ég á erfitt með þetta. Ég ítreka að ég er ekki hér og nú að taka afstöðu til siðferðislegra spurninga gagnvart staðgöngumæðrun. Ég átta mig á því að það er erfið spurning að spyrja: Hvað ef einhver fer út og kaupir sér barn í útlöndum? Ég skil alveg siðferðislegu erfiðleikana við það. Það sem ég skil ekki er lausnin á þeim erfiðleikum, þ.e. ef lausnin er sú að bann í íslenskum lögum hafi einfaldlega þau áhrif að börn fólks sem nýtir sér staðgöngumæðrun með réttu eða röngu þurfi að gjalda fyrir það. Það á ég erfitt með. Ég skil vandann en ég skil ekki lausnina ef lausnin felur það í sér.

Ég velt fyrir mér í auðmjúku ráðaleysi ef foreldri eða par eða einstaklingur brýtur þessi lög, væri ekki skynsamlegast að sekta hann eða eitthvað frekar en að láta þetta ganga á réttindi barnsins? Við gerum það við ýmsa hópa í samfélaginu, mér eru náttúrlega minnisstæðastir vímuefnaneytendur sem brjóta vissulega lög en hafa samt réttindi. Það eru ákveðin réttindi sem við látum þá hafa. Við gerum ekki ráð fyrir því að búa í samfélagi þar sem allir fara að lögum. Við gerum ráð fyrir brotalömum. Við erum ráð fyrir því að fólk hagi sér ekki alltaf í samræmi við lögin. Við getum ekki þurrkað út réttindi fólks, hvað þá barna, við það eitt. Ég er alveg auðmjúklega ráðalaus gagnvart þessu. Væri ekki eðlilegra að reyna að finna leið til þess að refsa foreldrunum frekar en barninu?