145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[21:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem vefst fyrir mér í umræðu sem þessari er hugtakið „jafnrétti barna“. Nú er það ekki svo að börn fái öll sömu framfærslu frá almannatryggingum, sama hvernig aðstaðan er. Þannig er það líka varðandi meðlag t.d., það eru mismunandi meðlagsgreiðslur. Það er mismunandi barnalífeyrir eftir því hvort foreldri er öryrki eða ekki. Ég held því að hugtakið jafnrétti barna eigi ekki við í þessu, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Hér erum við í raun og veru að tryggja að þeir sem fara ekki eftir lögum en hafa þó lögum samkvæmt framfærsluskyldu með barninu, foreldrar hafa framfærsluskyldu með börnum sínum, t.d. þegar maður tekur ákvörðun um það að vera einstæður faðir með aðstoð staðgöngumóður í útlöndum þá breytist ekki framfærsluskylda hans gagnvart barninu. Þess vegna finnst mér sérkennilegt að menn skuli yfir höfuð nota orðið jafnrétti barna við aðstæður eins og þessar.

Ég vil gjarnan vita hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að jafnrétti sé ekki hugtak sem eigi að nota í þessu.