145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

endurskoðun laga um lögheimili.

32. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu sem fjallar um endurskoðun laga um lögheimili þar sem 1. flutningsmaður er Oddný G. Harðardóttir og þingmenn úr öllum flokkum standa að. Búið er að flytja tillöguna einu sinni áður, á 144. þingi, þannig að það er nú ánægjulegt að hún skuli vera komin hér til síðari umr.

Hér er verið að ræða brýnt mál í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Lögin um lögheimili tóku gildi 1. janúar 1991 og hefur svo ótal margt gerst í samfélaginu sem hefur orðið til þess að nauðsynlegt er að ráðast í endurskoðun á þeim. Eins og fram kemur í tillögunni sjálfri hafa þau lög sem nú eru í gildi verið í gildi í um 25 ár. Það er ótrúlega margt gerst sem krefst þess að við endurskoðum þau.

Við þekkjum það sem búum í hinum dreifðu byggðum, og ekki bara þar, en kannski sérstaklega þegar fólk hefur þurft að sækja sér vinnu um langan veg hefur stundum verið gerð krafa um að viðkomandi flytji lögheimili sitt nær vinnunni og þá sérstaklega ef viðkomandi er búinn að vera lengi í þeirri vinnu. Við þekkjum dæmi um sjómenn sem vinna fjarri heimabyggð og sveitarfélögin sem þeir vinna hjá hafa gert kröfu um lögheimilisflutning svo þeir greiði útsvar sitt þar. Það hefur orðið til þess að flytja hefur þurft lögheimili allrar fjölskyldunnar sem býr á öðrum stað. Maður, t.d. sjómaður, sem vinnur hjá sveitarfélagi þar sem krafist er að lögheimili sé breytt, greiðir útsvar sitt þar og kemur svo í heimabyggð sína þar sem hann þiggur alla þjónustu. Það er eitt af því sem hafa þarf í huga í þessu samhengi.

Við þekkjum öll dæmi um að eftir hrun fóru margir til útlanda að vinna, þó aðallega karlmenn, og fjölskyldurnar urðu eftir hér heima. Noregur gerði m.a. kröfu um lögheimilisflutning og margur Íslendingurinn fór þangað. Þetta er kannski eitt af því sem hvetur til þess. Það er ekki bara stækkandi atvinnusvæði innan lands sem hafa gert það að verkum.

Tillagan þessi gengur í út á að leggja til að komið verði á fót starfshópi til þess að undirbúa endurskoðun á þessum lögum þannig að hjón geti átt lögheimili hvort á sínum staðnum hvort sem er um er að ræða bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis.

Allsherjar- og menntamálanefnd fékk ráðuneytisfólk úr innanríkisráðuneytinu á sinn fund; Fanneyju Óskarsdóttur og Ólaf Kr. Hjörleifsson frá innanríkisráðuneyti og Indriða B. Ármannsson og Björgu Finnbogadóttur frá Þjóðskrá Íslands, sem skilaði sérstakri umsögn. Svo höfðu borist umsagnir um málið á 144. löggjafarþingi.

Tekið er tillit til mismunandi aðstæðna fólks í tillögunni og viðurkennt að lögum að hjón geti verið búsett t.d. hvort á sínum staðnum, en þó ekki eingöngu ef annað þeirra býr erlendis.

Fulltrúar Þjóðskrár Íslands sögðu í umsögn sinni á fundi nefndarinnar að þau væru ánægð og lýstu yfir stuðningi við tillöguna en bentu um leið á að samhliða endurskoðun laga um lögheimili þurfi líka að endurskoða lög um aðsetursskipti. Nefndin tekur undir það.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið á síðasta löggjafarþingi var tekið undir markmið tillögunnar en því jafnframt lýst yfir að huga þyrfti að mörgum öðrum atriðum sem til væru komin vegna örra samfélagsbreytinga undanfarna áratugi. Nefndin hefur verið upplýst um að í innanríkisráðuneytinu sé hafin vinna við heildarendurskoðun laga um lögheimili og beinir nefndin því til ráðuneytisins að hafa hliðsjón af sjónarmiðum sveitarfélaganna í þeirri vinnu auk þessarar þingsályktunartillögu. Á fundum nefndarinnar kom enn fremur upp sú spurning hvernig haga skyldi lögheimilisskráningu barna hjóna sem ættu hvort sitt lögheimilið, yrði það heimilað að lögum. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að við fyrrgreinda vinnu verði kannaður sá möguleiki að börn verði skráð með tvö lögheimili þegar svo ber undir.

Eina breytingin sem nefndin leggur til er að þetta verði samþykkt með eftirfarandi breytingu; að í stað ártalsins „2016“ í tillögugreininni komi: 2017.

Við þekkjum vandamálin í kringum lögheimilisskráningu. Þetta á líka við einstæða foreldra eða foreldra sem ekki búa saman en eiga barn saman, þess vegna var það dregið hér inn að tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það þarf líka að huga að því hvernig og hvort tekjustofninum eða útsvarsstofninum verði skipt með einhverjum hætti. Þetta snýst líka um að sveitarfélögin fái sitt og að börn njóti þjónustu innan sveitarfélaga ekki síður en hinir fullorðnu til jafns eða hjá báðum foreldrum.

Hjá sveitarfélögum þar sem ferðaþjónustan er mjög mikil og mikil uppgrip yfir hábjargræðistímann kemur einkum ungt fólk og vinnur mikið á skömmum tíma. Það þiggur tiltekna þjónustu á staðnum og þess vegna er þess gætt að sveitarfélögin beri ekki skarðan hlut frá borði í því efni. Það er eitt af því sem rætt hefur verið í þessu samhengi. Allt hefur það með lögheimilisskráninguna að gera og vonandi dregst sú vinna ekki úr hófi fram. Búið er að vinna töluvert mikið hjá sambandinu og ef þetta nær hér fram að ganga, sem ég vona að verði í ljósi góðra umsagna, geri ég ekki ráð fyrir öðru en að þetta ætti að geta gengið hratt fyrir sig og sú vinna sem nú þegar hefur verið unnin bæði hjá ráðuneytinu og sambandinu, geti orðið til þess að flýta þessu.