145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

endurskoðun laga um lögheimili.

32. mál
[21:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu ágæta máli og langar í örfáar mínútur að ræða um fyrirbærið lögheimili og þjóðskrá, vegna þess að þetta er fyrirbæri sem mér finnst við taka sem sjálfsögðum hlut á Íslandi. Hafandi búið erlendis veit ég að það getur fylgt því ákveðinn glundroði að vera ekki með þjóðskrá sem er aðgengileg öllum, en það er samt ekki slíkur glundroði að allt fari til fjárans, samfélagið virkar alveg án þess að hafa slíka skrá. Nú er ég ekki á móti þjóðskrá en mér finnst hins vegar að það séu tækifæri vegna tækniframfara til þess að breyta hlutunum enn þá meira.

Þetta mál varðar það hvort hjón geti átt lögheimili hvort á sínum staðnum, eitthvað sem maður hefði haldið að væri búið að leysa fyrir árið 2016. Málið er að þegar ríkið tekur sig til og ætlar að ákveða hvað sé eðlilegt fyrir samfélagið og eðlilegt fyrir hjón er mikil hætta á því að sett sé einhver umgjörð sem passar einfaldlega ekki fyrir alla. Það er nákvæmlega tilfellið hér. Ég hygg að þetta sé oftar tilfellið en raunverulega er nokkur þörf á, að við setjum fólk inn í einhvers konar box sem við þurfum ekkert að setja það inn í. Við getum alveg náð sömu markmiðum án þess að setja fólk í slík box, án þess að neyða upp á fólk þetta norm og án þess að setja þær reglur sem við jafnan setjum.

Mig langar þess vegna að koma með hugmynd, sem mörgum finnst mjög róttæk, ég vil meina að hún sé það ekki, sem er sú að hreinlega bjóða upp á það að fólk þurfi ekki að skrá heimilisfang í þjóðskrá, heldur að hægt sé að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með því að hafa heimilisfang með tækniframförum. Það er auðvitað ástæða fyrir því að fólk vill hafa heimilisfang í þjóðskrá, t.d. til þess að hægt sé að ná í fólk með einhverjum áreiðanlegum hætti, alla vega lögformlegum hætti. Það getur verið öryggisatriði. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að menn vilja hafa heimilisfang í þjóðskrá. Mér finnst hins vegar að ef einstaklingi finnst það óþægilegt af einni eða annarri ástæðu, sem dæmi ef hann er að taka þátt í mjög umdeildum alþjóðlegum umræðum um t.d. trúarbrögð eða eitthvað álíka, eigi viðkomandi í það minnsta að geta falið heimilisfang sitt, enda er það þar sem maður geymir einkalíf sitt, börn sín o.s.frv.

Ég hygg að hægt sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með öðrum leiðum. Þess vegna finnst mér það þess virði að nefna þetta hér við þetta tækifæri þegar við tölum um þjóðskrá á Alþingi. Ég held ekki að það sé mikil þörf á þeirri útfærslu fyrirbærisins sem við erum með. Það eru gríðarleg sóknartækifæri í tækniframförum sem geta leyst af hólmi ýmsar hefðbundnar leiðir til að gera hlutina.

Eins og ég nefndi í upphafi er ég meðflutningsmaður málsins og ítreka að mér finnst skrýtið að við séum ekki löngu búin að gera það heimilt eða mögulegt að hjón hafi lögheimili hvort á sínum staðnum, mér finnst ótrúlega skrýtið að fólk hafi verið sett í þetta box. Ég fagna málinu og vona að það nái alla leið í gegnum atkvæðagreiðslu og verði að sjálfsögðu samþykkt.