145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

endurskoðun laga um lögheimili.

32. mál
[21:40]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu og get tekið undir orð þeirra Gunnarsbarna, hv. þingmanna sem töluðu á undan mér, að það er í rauninni tímaskekkja að enn þann dag í dag skuli hjón ekki geta haft lögheimili hvort á sínum stað. Það verður æ algengara að hjón vinni á mismunandi stöðum í mismunandi bæjarfélögum. Ég sjálf er dæmi um að hafa þurft að flytja heimili mitt og lögheimili á þann stað þar sem ég sótti vinnu í 14 ár og það hafði í för með sér að eiginmaður minn og börn þurftu að gera slíkt hið sama. Það hentaði þeim ekkert sérstaklega vel en þau létu það yfir sig ganga, þannig að ég þekki þetta á eigin skinni. Það var reyndar þannig að síðustu árin á þeim stað og síðan í þessari vinnu höfum ég og minn maður verið hvort með sitt heimili. Ég tek þetta persónulega dæmi bara vegna þess að þetta er reyndin í nútímaþjóðfélagi. Við þessu þarf auðvitað að bregðast.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að sveitarfélög sem hafa tekjur af íbúum sem eiga þar lögheimili vilji hafa þá sem skaffa góðar tekjur innan sinna vébanda. Það er einmitt þannig með t.d. sjómenn sem hafa jafnvel þurft að flytja lögheimili sitt á vertíðarstöð sína til þess að halda plássi.

Hér hefur verið farið yfir þá umfjöllun sem málið fékk í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég er mjög ánægð að heyra að í innanríkisráðuneytinu sé verið að vinna að þessu máli. Ég tel að þetta sé til mikilla bóta og sé í raun bara sjálfsagður hlutur í nútímasamfélagi að hjón geti átt hvort sitt lögheimili. Ég efast ekki um að fundnar verði bestu leiðirnar til þess að það verði gerlegt.