145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

byggingarsjóður Landspítala.

4. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. velfn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítalans.

Frumvarpið felur í sér að stofnaður verði byggingarsjóður Landspítala í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem starfræktur verði í því skyni að fjármagna nýbyggingu og meiri háttar endurnýjun á húsakosti Landspítalans.

Ljóst er að bygging nýs Landspítala er nú þegar hafin en framkvæmdir hafa þó tafist umtalsvert miðað við það sem lagt var upp með. Umsagnaraðilar benda á mikilvægi þess að bygging Landspítala tefjist ekki frekar þar sem spítalinn anni vart hlutverki sínu og að þar lengist biðlistar. Þá benda umsagnaraðilar á nauðsyn þess að tryggja fjármögnun slíkrar byggingar þótt þeir taki ekki endilega afstöðu til þess hvar eða hvernig það verði gert.

Ekki náðist samstaða í nefndinni um þá útfærslu á byggingarsjóði Landspítalans og fjármögnun hans sem lagt er upp með í frumvarpinu. Engu að síður var einhugur, virðulegur forseti, í nefndinni um að leggja áherslu á að haldið verði áfram byggingu Landspítala og henni lokið sem fyrst. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að hún vinni að frekari úrbótum á húsakosti Landspítalans bæði með því að ljúka byggingu nýs spítala sem og með úrbótum á núverandi húsakosti sem unnt er að nýta áfram.

Í ljósi þessa, virðulegur forseti, leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ásmundur Friðriksson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir þetta álit samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Að öðru leyti rita undir nefndarálitið Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Geir Jón Þórisson, Páll Valur Björnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, sem var 1. flutningsmaður þess frumvarps sem nefndin afgreiðir með þessum hætti.