145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í morgun fór fram kynning á skýrslu McKinsey um stöðuna í heilbrigðismálum. Í þeirri skýrslu var kastljósinu beint að afköstum á Landspítalanum, rekstrarhagkvæmni hans og framleiðni starfsmanna á spítalanum. Jafnframt var fjallað um nýtingu fjármuna og gæði veittrar heilbrigðisþjónustu. Þar að auki var fjallað um samspil Landspítalans við aðra hluta heilbrigðiskerfisins, þar á meðal heilsugæsluna og sérfræðinga á eigin stofum. Þar kom fram að stór hluti veittrar þjónustu á Landspítala sé bráðaþjónusta vegna einfaldra vandamála og ýmis starfsemi hafi færst á einkastofur á árunum 2012–2015. Í stuttu máli má segja að íslenska heilbrigðiskerfið þarfnist skýrari stefnu með tilliti til hvar og í hvaða magni skuli veita þjónustu. Þjónustu Landspítalans ætti að skipuleggja í samræmi við þá stefnu. Fram kom að nú þegar yfirvöld á Íslandi eru á ný að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið eftir niðurskurðarárin gefist einstakt tækifæri til að endurmeta kerfið og tryggja að auknar fjárveitingar nýtist sem best með tilliti til gæða heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi sé nauðsynlegt að líta til land- og líffræðilegra þátta sem áhrif hafa á þörf landsmanna fyrir aukna heilbrigðisþjónustu.

Þessar niðurstöður eru í miklu samræmi við það sem við framsóknarmenn höfum haldið fram og talað fyrir í nokkurn tíma. Það þarf að vinna heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Það þarf að fara í stefnumótun og skýra hvaða þjónustu eigi að veita í heilbrigðiskerfinu um land allt. Þar þarf m.a. að taka tillit til aldurssamsetningar íbúa, samgangna, fjarlægða og ýmissa annarra þátta. Tengja þarf byggðaaðgerðir við þessa heilbrigðisáætlun með það að markmiði að fá heilbrigðisstarfsfólk til fastra starfa víða um landið. Með því að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og færa þeim aukin verkefni með því að styrkja betur við hjúkrunarheimili víða um land getum við með góðu móti létt því álagi sem er á Landspítalanum og án efa aukið skilvirkni í kerfinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna