145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að opnum fundi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með umboðsmanni Alþingis í gær þar sem árleg skýrsla var til umfjöllunar. Þessi viðburður í samskiptum nefndarinnar og umboðsmanns er afar mikilvægur og fundurinn í gær var sérstaklega vel heppnaður, ekki einvörðungu til þess að draga fram helstu áherslur og verkefni í starfi umboðsmanns í þágu borgaranna heldur ekki síður að koma þeim upplýsingum á framfæri opinberlega. Ýmsan lærdóm má draga af þeim fundi eins og fyrirkomulag og þróun úrskurðarnefnda, flokkun viðfangsefna og árangur embættisins í innra skipulagi og úrvinnslu mála og fækkun kvartana.

Það er þó einkum tvennt sem ég vil nefna og er einlægur vilji til að bæta úr. Hið fyrra er möguleiki embættisins til að sinna frumkvæðisathugunum, sem hefur auðvitað óumdeilt forvarnavægi og er í senn öflugt aðhaldstæki ásamt og til viðbótar öðrum þeim leiðum sem til að mynda þingið hefur til þess að halda uppi virku aðhaldi með framkvæmdarvaldinu. Þess utan að umboðsmaður sem trúnaðarmaður Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu geti sinnt því mikilvæga hlutverki sínu og til hins ýtrasta. Frumkvæðiseftirlitið í þessu formi er þá til þess fallið að stuðla enn frekar að umbótum í stjórnsýslunni og tryggja betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Hitt málið er framkvæmdir við aðgengi að embættinu, aðgengi hreyfihamlaðra að skrifstofum umboðsmanns. Í hinu stærra samhengi er jafnrétti kjarni sjálfsagðra mannréttinda og það á við um hina lagalegu vernd, eins og kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um jafnt aðgengi. Umboðsmaður sagði og gerði að lokaorðum sínum að ekki færi vel á því að embættið byggi við slíkt aðstöðuleysi og kallaði sérstaklega eftir fjármagni til úrbóta.

Virðulega forseti. Við ættum að svara þessu kalli hið fyrsta.


Efnisorð er vísa í ræðuna