145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er loksins búið að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Það hefur tekið hæstv. ráðherra þrjú og hálft ár að koma því frumvarpi inn í þingið. Það er mikið réttlætismál að gera breytingar á almannatryggingakerfinu en samtímis eru það mikil vonbrigði að frumvarpið gangi ekki lengra í átt til kerfisbreytingar og sé ekki unnið í meiri sátt við félög eldri borgara og að öryrkjar séu algjörlega skildir eftir í þessum breytingum.

Ekki er búið að mæla fyrir málinu en nú þegar er okkur alþingismönnum farnar að berast mótbárur og athugasemdir við frumvarpið. Mér finnst það mikið áhyggjuefni því að eins og ég sagði er það réttlætismál að við breytum almannatryggingakerfinu.

Það sem helst eru gerðar athugasemdir við er að skerðingarmörkin verði of há og að fullkomið afnám frítekjumarka verði mjög ósanngjarnt, ekki síst þegar litið er til atvinnutekna. Þá er með engu móti í frumvarpinu verið að mæta kröfu okkar, Samfylkingarinnar og annarra í minni hlutanum, Pírata, VG og Bjartrar framtíðar. Við höfum viljað að lífeyrisþegum væru tryggðar sömu kjarabætur og öðru launafólki til að koma í veg fyrir kjaragliðnun og aukinn ójöfnuð þar af leiðandi.

Hér eru engar vísbendingar um að fara eigi með almannatryggingar upp í 300 þús. kr. eins og lágmarkslaun á vinnumarkaði og hér er engin tilraun gerð til að bæta fyrir það að lífeyrisþegar fengu ekki leiðréttingu aftur til 1. maí 2015 (Forseti hringir.) til að halda í við kjör á vinnumarkaði. Ég hef áhyggjur af þessu. Það er óheppilegt að svo mikilvægt mál sé að koma (Forseti hringir.) hingað inn og það sé augljóslega svona mikil andstaða við ýmsar þær breytingar sem hér á að gera.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna