145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar einhver vandamál steðja að, ýmist í einhvers konar stofnun eða félagi eða hvaðeina, mundu flestar sammælast um að góð vinnubrögð væru þau að reyna að skilja vandamálið til hlítar og reyna að finna einhverjar lausnir á því. Þá er hvatinn að leysa vandamálið, hvatinn er til þess að komast að hinu sanna. Ég hef hins vegar tekið eftir því á þeim stutta tíma sem ég hef verið í pólitík, og þó reyndar lengur þegar ég var almennur borgari, að í pólitík er annar hvati. Það er annar hvati til staðar sem snýr ekki að því að komast að hinu sanna, snýst ekki um það að skilja hlutina hvað best heldur að skilja þá sem mest á þann hátt að þeir komi pólitískum andstæðingum sem verst.

Þetta þykir eðlilegur hluti af pólitík. Mér finnst það undirstrika punktinn og mér finnst því mikilvægara að koma þeim skilaboðum áleiðis að við eigum að hafna slíkum málflutningi, sem er augljóslega settur fram til þess eins að koma höggi á einhvern annan en ekki til þess að komast að hinu sanna, hvað þá að bjóða upp á úrbætur.

Það eru vissulega einhverjir gallar á öllum mannlegum ferlum, innan sem utan þings, en ef við ætlum ekki að skoða þá með hliðsjón af því að finna út úr því hvað er raunverulega að þeim og hvernig er hægt að bæta þá erum við í skásta falli að sóa tíma okkar og í versta falli að vera til ógagns. Þess vegna langar mig að leggja það til við áheyrendur sem hlusta á pólitíkusana að meta hvað þeim gengur til. Til hvers eru þeir að segja það sem þeir segja?

Sömuleiðis langar mig að hvetja hv. alþingismenn og aðra stjórnmálamenn almennt, fólk almennt í lífinu, til að reyna að skilja hlutina sem best, ekki bara að því markmiði að reyna að láta þá líta svona eða hinsegin út. Það er kallað óheiðarlegt þegar það kemur fram annars staðar en í pólitíkinni. Það sem mér finnst skrýtið er að þeim óheiðarleika í pólitík er tekið sem sjálfsögðum hlut. Það undirstrikar punktinn.