145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það þarf að breyta tekjuskiptingunni í landinu. Það þarf að skera þjóðarkökuna upp á nýtt. Ég veit ekki hvað oft ég hef sagt það í þessum ræðustól. En það þarf ekki aðeins að breyta því hvernig tekjuskiptingin er milli fólks og fyrirtækja og ekki nóg að minnka bilið milli ríkra og fátækra, það þarf líka að breyta tekjuskiptingunni á milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin sjá um gríðarlega mikilvæga málaflokka, leikskólana og grunnskólanna, málefni fatlaðra og menningarmál hvers konar, bara til að nefna nokkur dæmi. Sveitarfélögin hafa ekki næga peninga til þess að sinna þeim áríðandi verkefnum vegna þess að tekjuskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga er gamaldags og úrelt. Hvernig er hægt að breyta því, forseti? Hvernig er hægt að sjá til þess að sveitarfélögin geti sinnt þessum verkefnum? Það er hægt að gera með því að við ákveðum í þessum sal að stærri hluti af tekjum ríkisins renni til sveitarfélaganna. Það væri lágmark að samþykkja frumvarp sem legið hefur í þinginu frá 2015 um hlutdeild í sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki til að vega upp á móti tekjutapi sveitarfélaganna vegna þess þegar leyft var að ráðstafa séreignarsparnaði til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Forseti. Ég reyni að vera ekki vænisjúk og almennt hlusta ég ekki á samsæriskenningar, en ég velti því fyrir mér hvort tregðan til að ráðstafa sanngjörnum hlut til sveitarfélaganna sé vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir eru í stjórn í stærsta sveitarfélaginu. Getur það verið, virðulegi forseti, að það sé látið bitna á leikskólum, grunnskólum, málefnum fatlaðra, að þeir geti ekki hugsað sér að veita nægilega peninga til sveitarfélaganna af því stjórnarandstöðuflokkarnir stjórna í Reykjavík?


Efnisorð er vísa í ræðuna