145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hvarf hér áðan um skiptingu verkefna og tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur löngum verið umræða að sveitarfélögin þurfi fleiri tekjustofna en þau hafa í dag. Margoft hefur það verið rætt á milli ríkis og sveitarfélaga hvernig haga mætti þeim þáttum og hvar og hvernig sveitarfélögin gætu fengið fleiri tekjustofna til sín.

Menn hafa nefnt hér bensínskattinn, að að hluta til ætti bensínskattur að renna til sveitarfélaganna þar sem þeirra er ábyrgðin á samgöngum innan síns sveitarfélags o.s.frv. Menn hafa rætt um marga aðra þætti en illa gengur að komast að niðurstöðu um hvernig auknir tekjustofnar koma til sveitarfélaganna. Hins vegar er nauðsynlegt með því sem við horfum á í dag að við virðum þetta stjórnsýslustig sem sveitarfélögin eru. Gerum því stigi hærra undir höfði, færum fleiri verkefni til sveitarfélaganna vegna þess að þar er nærþjónustan og þeir þekkja betur sem þar starfa sitt eigið nærsamfélag, betur en við sem sitjum hér á Alþingi og setjum landinu lög sem flestir eiga að ferðast um í.

Hins vegar hafna ég alfarið því sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, að stjórnarflokkarnir hér og nú, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilji ekki auka hlutdeild sveitarfélaga í tekjustofnum vegna þess að í Reykjavík séu Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar við völd. Mér þykja samsæriskenningar vera farnar að fljúga ansi hátt.


Efnisorð er vísa í ræðuna