145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir að nefna hér og gefa greinargóða lýsingu á því sem tengist landbúnaðarsamningunum sem hafa verið til umræðu og varða dýraníð. Ég hef, eins og aðrir hv. þingmenn, orðið vör við þó nokkra umræðu um þetta á samfélagsmiðlunum svokölluðu og öðrum miðlum. Það er ekki örgrannt um að sú umræða sé í nokkurri geðshræringu en auðvitað er hér ekki nokkur þingmaður sem mundi styðja það, hvorki beint né óbeint, að dýraníðingar væru að störfum með eða án ríkisstyrkja.

Sum umræða fer fram í mikilli geðshræringu og þannig er háttað til um það mál sem ég ætlaði aðeins að fá að nefna. Á síðustu dögum þingsins hafa mjög verið til umræðu svokallaðir bankabónusar sem voru þó eiginlega ekki hinir eiginlegu bankabónusar heldur var um að ræða umbun sem eignarhaldsfélög sem tóku við eignum af föllnu slitabúunum ákváðu að greiða starfsmönnum sínum gegn árangri við sölu eigna.

Í þessum sal varð mikil umræða um þetta mál í mikilli geðshræringu og stór orð féllu, gífuryrði sem ekki varð annað séð en hafi byggst á töluverðum misskilningi. Vonandi var það óafvitandi en ekki skipulagt. Það kom mér sérstaklega á óvart, einkum vegna þess að það er ekki lengra síðan en ár þegar hv. þingmenn tóku þátt í því að liðka til fyrir nauðasamningum við þessi slitabú. Slitabúin greiddu yfir 500 milljarða í ríkissjóð gegn því að þau færu með aðrar eignir sínar úr landi.

Menn töluðu um græðgi í bankabónusum. Ég kalla það auðvitað ekkert annað en græðgi þegar menn vilja ganga jafnvel enn lengra á eignir erlendu kröfuhafanna í stað þess að fagna því að eitthvað af þeim verður þó eftir hér í formi skattgreiðslna, 700 milljarðar ef ég þekki rétt. Ég vildi nefna að hv. efnahags- og viðskiptanefnd samþykkti í morgun allt að einu (Forseti hringir.) að taka þessi mál sérstaklega til umfjöllunar og var rík samstaða um það. Ég vona að það verði til þess að koma (Forseti hringir.) umræðu um þessi mál á eitthvert vitrænt plan.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna