145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[15:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er mér sérstakt ánægjuefni að mæla fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Þing aðila að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna samþykkti í París í desember á seinasta ári einn mikilvægasta samning sögunnar til að bregðast við loftslagsbreytingum, Parísarsamninginn. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd á formlegri undirritunarathöfn sem fór fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York 22. apríl sl.

Parísarsamningurinn er lagalega bindandi samningur sem skuldbindur ríki heims til að vinna saman að því mikilvæga verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir, að bregðast strax við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra sem ógna lífi á jörðu.

Parísarsamningurinn er jafnframt metnaðarfyllsti loftslagssamningurinn sem ríki heims hafa gert til þessa. Með honum skuldbinda þau sig til að framfylgja stefnu sem var ætlað að snúa við þeirri ógnvænlegu þróun sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Virðulegi forseti. Markmiðið með Parísarsamningnum er fyrst og fremst að halda hækkun hitastigs jarðar innan tiltekinna marka. Þau mörk eru, samkvæmt samningnum, undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Jafnframt er mælt fyrir að leitað skuli leiða til að halda hækkuninni undir 1,5°C. Ríkin setja sér markmið um minnkun losunar, svonefnd landsákvörðuð framlög, sem þau ákveða sjálf og myndar Parísarsamningurinn lagalegan ramma utan um þessar skuldbindingar ríkjanna. Samningurinn mælir hins vegar ekki fyrir um hver þessi markmið skuli vera eða hvernig þau eru útfærð. Það verður á valdi ríkjanna sjálfra. Það er hins vegar mikilvægt að gert er ráð fyrir að öll ríki taki þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en það er í fyrsta sinn sem svo er gert.

Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að ríkin tilkynni reglulega landsákvörðuð framlög sín til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau hyggjast minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Frá og með árinu 2020 skulu ríkin sýna sífellt aukinn metnað í framlögum. Virkt bókhalds- og eftirlitskerfi á að tryggja að fylgt verði eftir settum markmiðum og að skuldbindingar verði sambærilegar.

Flest ríki tilkynntu áform sín um skuldbindingar fyrir Parísarfundinn. Ísland sendi inn sitt markmið 30. júní 2015 þar sem stefnt er að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við árið 1990, í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg. Endanlegar skuldbindingar Íslands á grundvelli Parísarsamningsins ákvarðast af samningi þessara þriggja aðila. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu á næsta ári.

Þetta fyrirkomulag er hentugt fyrir ýmissa hluta sakir. Samkvæmt EES-samningnum hafa íslensk fyrirtæki tekið þátt í evrópsku viðskiptakerfi um losunarheimildir um árabil, svonefnt ETS-kerfi. Því var á sínum tíma talið hagstætt og eðlilegt að skapa þannig umhverfi að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunar fyrir árin 2013–2020. Þannig skuldbatt Ísland sig til að minnka losun um rúmlega 20% til ársins 2020 miðað við árið 2005.

Við höfum góða reynslu af þessu samstarfi og hér er um eðlilegt framhald að ræða. Ísland starfar þannig með mörgum af metnaðarfyllstu ríkjum heims í loftslagsmálum og þar viljum við halda áfram að staðsetja okkur. Það verður að teljast eðlilegt að samræmi sé á milli alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og reglna um loftslagsmál sem við tökum upp á grundvelli EES-samningsins. Norðmenn hafa komist að sömu niðurstöðu og því stefnir í að gengið verði á næstunni frá sameiginlegu markmiði 30 ríkja innan ramma Parísarsamningsins og útfærðum innri reglum þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Ísland býr að mörgu leyti við einstakar aðstæður þar sem rafmagnsnotkun og húshitun er þegar mætt með nærri 100% endurnýjanlegri orku. Tækifæri eru þó að sjálfsögðu fyrir hendi á öðrum sviðum sem verið er að vinna að, m.a. á grundvelli sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í aðdraganda Parísarfundarins. Þar er í fyrsta sinn komin fram heildstæð verkefnaáætlun í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum og lögð áhersla á að fá aðila úr atvinnulífinu, stofnunum og háskólasamfélaginu til liðs við verkefnið.

Parísarsamningurinn leggur sérstaka ábyrgð á þróuð ríki. Þannig ber þeim að sýna forustu við framkvæmd samningsins þar sem þau eru í betri efnahagslegri stöðu til að takast á við vandann, auk þess að bera ábyrgð á stórum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda. Þá er mælt fyrir um að þróuðu ríkin skuli veita þróunarríkjunum aðstoð í formi fjármagns og stuðnings vegna loftslagsvænnar tækni. Þróunarríkin hafa oftast minna bolmagn til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga eða grípa til aðgerða til að minnka losun.

Þessi ákvæði samningsins eru í samræmi við kjarnann í áherslum íslenskra stjórnvalda á sviði þróunarsamvinnu um árabil. Skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og íslensk stjórnvöld hafa um árabil aðstoðað þróunarríkin við að byggja upp þekkingu og tækni hver á sínu sviði, en allir með sterka tilvísan í loftslagsmálin. Mikilvægi slíks starfs er nú staðfest með samningnum. Einnig hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að auka framlög til Græna loftslagssjóðsins og efla þátttöku í loftslagsverkefnum á vegum Norðurskautsráðsins. Þá var Ísland í forustu um að sett yrði á fót alþjóðlegt bandalag um nýtingu jarðhita á loftslagsráðstefnunni í París.

Þá er sérstakt ánægjuefni að Parísarsamningurinn hefur að geyma ákvæði um að mæta skuli kynjajafnréttissjónarmiðum í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum og styrkingu innviða, en Ísland hélt þeim sjónarmiðum einmitt mjög á lofti í samningaviðræðunum.

Virðulegi forseti. Árið 2016 virðist hitastig í heiminum stefna í það hæsta frá því að mælingar hófust. Hitamet eru slegin, haf súrnar, sjávarmál hækkar, veðurofsar valda mann- og eignatjóni og þurrkar eyðileggja uppskerur. Í dag átti ég fund með utanríkisráðherra Bangladess sem staddur er hér á landi þar sem afleiðingar loftslagsbreytinga eru einmitt hvað alvarlegastar. Stefnir í að um 15 milljónir manna þar í landi gætu þurft að flýja heimili sín fyrir árið 2050 ef fram heldur sem horfir.

Við í norðrinu eigum einnig gríðarlegra hagsmuna að gæta og síðar í vikunni verður heildstætt mat á hagsmunum Íslands á norðurslóðum kynnt sem unnið hefur verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Áhrifa loftslagsbreytinga á norðurslóðum gætir víða og hvað hraðast á heimsvísu. Hitastig hækkar, jöklar hopa og lífsmynstur breytist. Þá sýna rannsóknir síðustu 30 ára að haf norður af Íslandi hefur súrnað verulega og við því þarf að bregðast þar sem vistkerfi sjávar er viðkvæmt. Ekki þarf að fjölyrða um hagsmuni Íslands í þeim efnum.

Parísarsamningurinn leggur hornstein að stefnu ríkja í loftslagsmálum til framtíðar. Parísarsamningurinn snýst um framtíðina. Hann snýst um ábyrgð okkar á því hvernig jörð við skilum til barnanna okkar.

Samningurinn öðlast gildi þegar a.m.k. 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann. Sá fjöldi er nú rúmlega 20 ríki, en mikilvægum áfanga var náð í seinustu viku þegar Bandaríkin og Kína lýstu því yfir að þau væru að fullgilda samninginn.

Ísland hefur sömuleiðis mikilvægu hlutverki að gegna við framkvæmd samningsins og var í hópi þeirra ríkja sem vildu metnaðarfullan samning. Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum nú sendir skilaboð um við viljum sýna metnað við framkvæmd samningsins og leggja okkar af mörkum til að hann hljóti gildi sem fyrst á heimsvísu. Ég vonast því til að Ísland geti fullgilt samninginn sem fyrst.

Að svo mæltu legg ég til að þingsályktunartillögu um fullgildingu á Parísarsamningnum verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar.