145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra framsöguræðuna. Hún var góð.

Tveir skólar hafa verið gegnumsneitt í gegnum alla umræðu um umhverfismál undanfarna áratugi, annars vegar að maðurinn sé einhvers konar meistari eða yfirboðari náttúrunnar, geti farið sínu fram og eigi að hagnýta náttúruna eftir fremsta megni eins og honum sýnist og hentar honum. Svo er hinn skólinn sem gengur út á að maðurinn sé hluti af náttúrunni og þurfi að gæta að framgöngu sinni þannig að hún sé sjálfbær.

Hlýnun jarðar og loftslagsins er skýrasta birtingarmynd þess að fyrri skólinn er hugmyndafræðilega gjaldþrota. Það er hugmyndafræði sem gengur ekki upp. Þess vegna blasir við sá vandi sem blasir við. Það blasir líka við okkur sem erum alþjóðlega sinnuð að slíkur vandi verður ekki leystur öðruvísi en með öflugu samstarfi þjóða.

Ég var ásamt öðrum þingmönnum í París fyrir ári þegar þessir samningar voru í vinnslu og gengið frá þeim. Ég vil segja að það er mikið fagnaðarefni að nú hilli undir að við fullgildum þá í þinginu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvar við sjáum afgerandi aðgerðaáætlun. Til dæmis veit ég að í gildi er svokölluð loftslagsáætlun sem a.m.k. fyrri ríkisstjórn setti sér. Hvar er hún stödd? Er verið að vinna eftir henni með einhverjum hætti? Sjáum við þess merki?

Í síðara andsvarinu langar mig að ræða aðeins um súrnun sjávar sem er mjög alvarlegt mál fyrir Íslendinga og mjög klárt mál þar sem við eigum að einbeita okkur en erum því miður að sinna að afar (Forseti hringir.) litlu leyti, a.m.k. þegar kemur að rannsóknum.