145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins sé komin fram. Ég tel það vera mikið fagnaðarefni og styð auðvitað málið heils hugar. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi í framsöguræðu sinni með málinu rakið ágætlega mikilvægi og nauðsyn þess. Ég held að það séu engar ýkjur að segja að loftslagsmálin eru einhver stærstu og mikilvægustu verkefni okkar samtíðar og okkar sem erum þátttakendur á hinu pólitíska sviði núna. Þetta eru einhver stærstu verkefnin sem okkar bíða og við þurfum að fást við og taka á. Mér finnst það jákvætt að Ísland ætli að vera í hópi þeirra ríkja sem vilja standa að metnaðarfullum samningi og að við viljum starfa með metnaðarfyllstu ríkjum heims. Ég held einmitt að sem ein af ríkustu þjóðum heims beri okkur hreinlega skylda til að vera mjög metnaðarfull þegar kemur að þessum málum, en einnig vegna þess að við búum óskaplega vel þegar kemur að ákveðnum þáttum líkt og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni. Við erum svo gæfusöm við getum hitað húsin okkar með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti frá náttúrunnar hendi. Það er eitthvað sem mjög margar þjóðir í heiminum geta hreinlega ekki. En ég held að við mundum flest skrifa upp á að það að búa í hlýju húsnæði, eða niðurkældu húsnæði ef maður býr sunnar á jarðarkúlunni, séu óskaplega mikil lífsgæði. Ég held að þetta sé ein af stóru áskorununum sem mjög mörg ríki standa frammi fyrir, þ.e. hvernig hús verða hituð og kæld. Ég held að vegna þess að við búum við þessa miklu grænu orku sem við getum nýtt til húshitunar getum við ekki aðeins verið öðrum fyrirmynd heldur beri okkur einnig á sama tíma skylda til að leggja einstaklega mikið af mörkum á öðrum sviðum þar sem við búum við slík forréttindi og gæði.

Ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að vinna nægilega vel að aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Ég tel þess vegna að sú spurning sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir spurði að hér áðan í andsvörum við hæstv. ráðherra um það hver samningsmarkmið Íslands væru sé mjög mikilvæg. Ég tek undir þau orð að við getum ekki eingöngu beðið eftir því að sjá hvað Evrópusambandið ætli að gera heldur verðum við einnig að setja fram okkar eigin markmið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem hæstv. ráðherra sagði þar sem hún talaði um áherslu á skógrækt. Ég held að það sé fínt. En ég held að það þurfi að huga að þessum málum á svo miklu stærri og víðari grunni því að skógrækt ein og sér held ég að dugi engan veginn. Þess vegna vil ég hvetja til þess og undirstrika nauðsyn þess að Ísland geri sér aðgerðaáætlun og vísa því að hluta til til hæstv. umhverfisráðherra, sem ég er mjög ánægð með að sé hér í salnum og ætli að taka þátt í umræðunni, því að það verkefni er auðvitað að miklu leyti á hennar borði þó svo að hæstv. utanríkisráðherra fari með það hlutverk að leggja fram fullgildingu á Parísarsamningnum.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir beindi til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir í loftslagsmálum er einmitt spurt um það hvernig stjórnvöld hyggist fylgja eftir sóknaráætlun í loftslagsmálum og til að mynda spurt um hvert hlutverk hinna ýmsu stofnana sem heyra undir umhverfisráðuneytið sé í þessum málum. Það er athyglisvert þegar maður les í gegnum svör hæstv. ráðherra að þar eru orð á borð við rannsóknir, vöktun, eftirlit, losunarbókhald, aftur kemur hér fyrir orðið vöktun, gegnumgangandi í gegnum allt svarið. En þetta er vitaskuld ekki nóg. Auðvitað er mikilvægt að fylgjast með og hafa kortlagt alla þessa þætti en vöktun ein og sér og bókhald munu ekki verða til þess að Ísland geti dregið úr losun sinni. Það þarf meira að koma til. Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki leyft okkur að bíða heldur verði að byrja vinnuna mjög hratt, það verði að setja markmið og gera áætlun um það hvernig Ísland ætli að uppfylla og standa við þær skuldbindingar sem fullgilding Parísarsamningsins þýðir. Ég hef áhyggjur af því að of mikill fókus sé settur á orðin á blaðinu sem segja að við ætlum að ná 40% samdrætti í losun árið 2030, sem er auðvitað gott og nauðsynlegt markmið, en það verður að liggja fyrir áætlun um það hvernig við gerum þetta. Annars er hreinlega hætt við að þessi stórmerkilegi samningur sem var gerður í París verði ekki að neinu því að ef fleiri lönd draga lappirnar og skrifa bara undir, því undirskrift er jú auðveldi parturinn í þessum efnum, ef raunin verður sú að ríkin setja sér ekki markmið sem þau ætla að fylgja, þá gerist auðvitað ekki neitt.

Ég vil því að lokum, um leið og ég fagna því aftur að þessi þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins sé komin fram, brýna (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn sem og þá flokka og það fólk sem verður í forsvari eftir kosningar til þess að taka málið föstum tökum og setja markmið og gera áætlun til þess að okkur verði ágengt í þessum efnum.