145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir ræðu hennar í þessu máli. Mig langar að freista þess að spyrja hana spurninga sem ég spurði framsögumann hér áðan og fékk ekki svör við og lúta að samningsmarkmiðum Íslands í samskiptunum við Evrópusambandið og á okkar sameiginlegu fundum ásamt Noregi með ESB um þessa sameiginlegu framkvæmd.

Það liggur fyrir að við ætlum að vera samferða Evrópusambandinu, um það var gert samkomulag á sínum tíma. Ég held að það sé efnislega skynsamlegt. Hins vegar sakna ég þess að fram komi hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, og þá stendur það kannski frekar upp á umhverfisráðherra en utanríkisráðherra sem vék sér undan að svara því áðan, hver verði aðkoma Íslands eða samningsmarkmið við samningaborðið. Það er jú alveg ljóst og rétt og kom fram í orðum hæstv. umhverfisráðherra áðan að hlutfall svokallaðrar hreinnar orku á Íslandi er mikið og hafa verið nefndar tölur yfir 70% og telst vera það hæsta í heiminum. Það er nálægt þeirri tölu líka í Noregi. Mig minnir að þar sé talan 69% nefnd. En engu að síður hafa norsk stjórnvöld lýst því yfir að þau vilji draga úr losun um 40% óháð þessum samningum við Evrópusambandið um þátttöku í sameiginlegu markmiði. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti sagt okkur frá því hvaða skilaboð Ísland vilji vera með við samningaborðið eða hvort Ísland vilji sjá fyrst hvað kemur út úr samskiptum Noregs og Evrópusambandsins.