145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarlegt og málefnalegt svar í þessu efni sem er auðvitað mikilvægt að hafa í svo stórum málaflokki. Ég vil taka undir með ráðherranum að það er fagnaðarefni að þetta þingmál skuli vera loksins fram komið og við getum lagt okkar að mörkum a.m.k. í þessu staðfestingarferli.

Það fram kemur í máli hæstv. ráðherra að hún treystir sér ekki til þess að taka undir markmið Noregs og ég virði það við ráðherrann að fyrir því séu einhverjar ástæður, en nú fer að losna um Alþingi og kosningar fara að nálgast og fólk er að móta afstöðu sína í stórum málaflokkum, þar á meðal í umhverfismálum. Sumir vilja halda því fram, m.a. sú sem hér stendur, að loftslagsmálin séu kannski eitt af stærstu málum samtíðarinnar og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem mun í lok þessa stutta kjörtímabils yfirgefa sæti umhverfisráðherra, hvað hún telji vænlegast að verði framlag Íslands á þeim vettvangi. Gefum okkur að hún vilji ekki svara því fyrir sjálfa sig heldur láta Framsóknarflokknum það eftir, en ég vil samt freista þess að spyrja hana sérstaklega um hugmynd sem hefur verið mjög víða uppi, þ.e. að viðkomandi samfélag stefni að því að verða kolefnishlutlaust á einhverju tilteknu ári, t.d. árinu 2050. Ég spurði líka hæstv. utanríkisráðherra um þetta og fékk ekki svör við því. Ísland gæti orðið kolefnishlutlaust árið 2050. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um það. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra, þegar hún lítur yfir farinn veg sinnar embættistíðar og til framtíðar fyrir landið og miðin, fyrir Ísland (Forseti hringir.) og mannkynið, hvort hún telji það ekki vera gott framlag okkar Íslendinga inn í þá umræðu.