145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Að sjálfsögðu fagnar maður því að við séum að fullgilda þennan samning. Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til að vera í París á fundi sem haldinn var í franska þinginu á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem farið var yfir þessu mál og þær ályktanir sem Alþjóðaþingmannasambandið hefur verið að vinna í málaflokknum. Ég verð að segja að það var svolítið merkilegt að heyra í kollegum mínum, þingmönnum víðs vegar að úr heiminum, og þeim sem hafa verið á ráðstefnum um loftslagsmál og í tilraunum til að setja hnattræn viðmið til að takast á við hið gríðarlega stóra vandamál sem við horfumst í augu við á hverjum degi, sem verður alltaf stærra og stærra og nánast svo yfirþyrmandi að maður hálflamast. Það hefur verið voðalega lítið um að þingmenn séu á loftslagsráðstefnunni þangað til núna. Alþjóðaþingmannasambandið átti stóran hlut í því að það voru svona margir þingmenn þarna en þessi fundur var hengdur við loftslagsráðstefnuna sem við áttum sem aukafund og mjög margir sáu tilefni til að koma. Ég held að mjög brýnt sé að þetta sé einmitt tekið miklu meira og dýpra inn á hið pólitíska svið en hefur verið gert. Í raun hlýtur það að vera ákveðin krafa til allra stjórnmálaflokka að loftslagsmálin séu hluti af orðræðunni á hverju ári og sér í lagi á kosningaári. Við verðum að hætta að líta svo á að umhverfið okkar tengist tilteknum flokkum. Það hefur alltaf valdið mikilli furðu hjá mér að það sé skilgreint á þann hátt að þeir sem láti sig umhverfið varða séu vinstri fólk. Mér finnst það stórkostlega furðulegt. Það er ein af ástæðunum fyrir því að okkur hefur miðað svona lítið áfram.

Það var nokkuð sem olli mér töluvert miklu hugarangri í París varðandi samninginn. Þetta er að sjálfsögðu tímamótasamningur en hann tekur aðeins á mjög afmörkuðu vandamáli. Það kom nefnilega í ljós að ákveðið var að taka út fyrir sviga eina aðalástæðuna fyrir því að það fer svona mikill koltvísýringur út í andrúmsloftið. Það eru nefnilega ekki bara bílar eða flugvélar. Það er ekki bara olían. Nei, það eru líka trén sem falla vegna sívaxandi kröfu um kjöt, ódýrt kjöt. Það var ákveðið að taka þetta út fyrir sviga því að talið var að ekki yrði hægt að ná samkomulagi með þennan stóra hluta vandamálsins innan sviga. Það olli mörgum miklum vonbrigðum.

Þá var jafnframt ekki tekið á ástæðu þess að olíuverð er svona lágt. Farið hefur verið út í sífellt óumhverfisvænni aðgerðir til að ná í meira gas og olíu sem er gert m.a. í gegnum „fracking“ og líka er hægt að sjá hörmulegar afleiðingar þess sem kallað er tjörusandar, aðferð við að ná upp olíu í Alberta-fylki í Kanada. Það er nánast ómögulegt að takast á við öll þessi stóru mál ef við sleppum langstærsta hluta vandamálsins. Hvað varðar að setja kvóta á stóriðju og fyrirtæki hefur það nú þegar sýnt sig að svindlað er á því. Fyrst við getum ekki tekið þetta inn í samfélögin okkar og aðstoðað fólk við að finna fyrir samfélagslegri ábyrgð gagnvart framtíðinni, þá erum við alltaf að gera pínulítið og aldrei nóg. Við erum að verða of sein, forseti. Ef við gerum ekki eitthvað róttækt, ekki einungis varðandi lög og kvaðir, ef við gerum ekki eitthvað róttækt inni í okkur, inni í hverju einasta mannsbarni, þá verður framtíðin fyrir börnin okkar og barnabörn hræðileg. Hún verður hræðileg, forseti. Ég skil ekki af hverju þetta fær svona lítið rými. Þetta vandamál fer ekkert. Þetta vandamál stækkar dag frá degi. Það þýðir ekki að taka á afmörkuðum hluta þess. Við verðum að líta á þetta heildrænt.

Það voru örlagatímar 1960–1970. Þá þegar var fólk orðið mjög meðvitað um þá vá sem mengun og eitur er, sem var sett út í náttúruna og er enn að koma fram. Til dæmis eru dýr með þykkt fitulag, hvort sem þau eru í sjó eða á landi við Grænland og á Grænlandi, enn með eitur í sér frá því að eitri var pumpað út árið 1970 og 1980. Mengunin hverfur ekkert. Hún heldur áfram að vera hluti af vistkerfinu okkar. En á þessu tímabili, 1960–1970, var tekin ákvörðun sem hefur verið mjög afdrifarík. Hún var sú að þegar átti að tala um hnattræna hluti varðandi umhverfi og mengun var ákveðið að fara þá leið að láta tæknina laga þetta, að tækni framtíðarinnar mundi laga þau vandamál sem var þá þegar vitað að mundu blasa við okkur síðar meir. Ef farin hefði verið sú leið að taka á þessu út frá samfélagi frekar en tækni værum við sennilega í öðruvísi heimi í dag. Auðvitað getum við nýtt okkur tæknina til þess að bregðast við ýmsu og þróa betri leiðir, en á meðan samfélagið er ekki hluti af því að takast á við þá stórkostlega mikilvægu hluti sem hin risastóru vistspor mannkynsins á jörðina eru þá er ansi hætt við að fólk upplifi ekki þá ábyrgð sem það þarf að axla sameiginlega í þeirri framtíðarsýn sem við erum að fara inn í núna.

Það var mjög ánægjulegt að sjá að Kína og Bandaríkin hafi ákveðið að fullgilda þennan samning. Að sjálfsögðu er fagnaðarefni að við ætlum að gera það líka. En við þurfum að spyrja okkur: Hver er okkar sýn? Hvað ætlum við að gera? Ætlum við bara að moka ofan í skurði sem voru grafnir eitt sinn til þess að skapa land þar sem áður var mýri? Það er ekki nóg, við vitum það. Erum við með langtímaáætlun um hvernig við getum hætt að flytja inn óþarfar vörur? Við getum auðveldlega verið með hátæknigróðurhús hér og nýtt okkur orkuna á þann veg. Þetta á við um allan innflutning. Ég man eftir umræðunni í kringum álverið á Reyðarfirði. Aðalsölupunkturinn var að þetta væri svo grænt og vænt. Við ætluðum að bjarga öðrum þjóðum frá því að nota vonda orku, mengandi orku. En á sama tíma var aldrei tekið með inn í umræðuna hvaðan báxítið kemur. Það er flutt til Íslands, alla leið frá Ástralíu. Er það sjálfbært? Er það gott? Væri þá ekki nær að hafa álverin þar, frekar en á Íslandi? Við þurfum að fara að hugsa á miklu stærri hátt og huga að því hvernig við getum í raun og veru byrjað að taka til hjá okkur, því að það eru fáar þjóðir sem ná okkur þegar kemur að því hversu djúpt vistspor okkar er. Við þyrftum ansi margar jarðir ef allar þjóðir heims skildu eftir jafn djúp vistspor og Íslendingar.

Þetta er allt of stuttur tími til að tala um svona stórt mál. Ég er strax búin með tímann minn. Þetta er eitt af þeim málum sem eru mér er hvað mikilsverðust sem einstaklingi og þingmanni. Við höfum bara þessa jörð og eigum að passa upp á hana. Við erum að verða of sein. Þess vegna verðum við á hverjum degi að eyða smá tíma í að hugsa hvernig við getum passað upp á að það verði framtíð fyrir önnur dýr, fyrir börnin okkar og barnabörn.