145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að ræða þetta mál hér í dag og athyglisvert að allir ræðumenn eru kvenkyns, alla vega fram að þessu. En ég veit að það eru margir karlmenn í þinginu sem hafa auðvitað áhuga á þessu máli. Þetta er afar brýnt. Ég vil nota tækifærið og óska hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með daginn og okkur öllum að vera að taka þetta mál til fyrri umr.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram, ég mundi vilja að við Íslendingar værum enn metnaðarfyllri, ég er hrifin af því orði. Ég held að það sé rétt sem hæstv. umhverfisráðherra sagði í ræðu sinni að það hefur orðið vakning. En við erum samt að mörgu leyti eftirbátar Norðurlandanna og annarra þjóða. Það verður að segjast eins og er að sú umhverfislöggjöf sem við höfum innleitt hefur að miklu leyti komið til vegna tilskipana Evrópusambandsins. Það er kannski ekki þannig endilega í dag en við tókum stökk í umhverfisverndarmálum þegar við urðum aðilar að EES.

Það er líka mjög góð áætlun sem hæstv. atvinnuvegaráðherra lagði til um orkuskipti, ég man ekki hvað hún heitir nákvæmlega en við ræddum hana hér um daginn. Markmiðið er að auka til muna notkun annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. Þar er okkur vandi á höndum því að olíuverð er mjög lágt. Á sama tíma og við vitum að það að brenna jarðefnaeldsneyti eykur vandann með gróðurhúsalofttegundum, koltvísýringi, þorum við samt ekki að skattleggja þessa óumhverfisvænu vöru. Ég veit ekki hvað skal segja, kannski vonum við bara að olíuverð fari að hækka aftur þannig að hinir kostirnir sem við höfum, sem eru þó nokkrir, verði ódýrari. Ég skal viðurkenna að á meðan við erum ekki tilbúin til að taka einhver slík skref og segja: Við erum að nota jarðefnaeldsneyti, við vitum að við gerum jörðinni ógagn og skaða og tökum af skarið og skattleggjum eins og við þyrftum, þá breytist ekkert. Í dag er ódýrara að kaupa dísilolíu eða bensín en til dæmis lífdísil. Við höfum talað um það áður í þessum sal að það er ódýrara að urða lífrænan úrgang en að fara með hann í moltugerð. Og á meðan ódýrari kosturinn er óumhverfisvænni breytist ekki neitt. Stjórnvöld verða að þora að taka af skarið ef við meinum eitthvað með þessu.

Ég er mjög ánægð með hvað páfinn hefur talað afdráttarlaust. Ég átti ekki von á að ég færi að vitna í hann í ræðustól Alþingis, en mér finnst virkilega áhugavert að sjá að manneskja með þetta mikil völd skuli tala svona afdráttarlaust. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að auðvitað er lífsstíl okkar Vesturlandabúa vandamálið. Það sem páfinn sagði líka, sem er alveg rétt, er að loftslagsbreytingarnar bitna verst á þeim sem bera minnsta ábyrgð á þeim. Við getum tekið ýmis skref hér eins og að gróðursetja tré og moka ofan í skurði og keyra á rafbílum og metanbílum. Allt er það mikilvægt og gott og við eigum að sjálfsögðu að vera róttæk í þeim efnum. En ég mundi líka leggja til að fólk horfði aðeins í neysluna því að allt sem við kaupum skilur eftir sig vistspor, hvort sem það eru fötin okkar, símarnir eða tölvurnar eða húsgögnin, að ekki sé nú talað um ferðalögin, við ferðumst sem aldrei fyrr. Auðvitað tekur þetta allt sinn toll.

Vandamálin geta verið þannig að manni fallist hreinlega hendur. En ég vona að hæstv. ríkisstjórn sem nú er hugsanlega að kveðja taki skref í þessa átt og sú sem tekur við haldi áfram og taki jafnvel enn þá stærri skref. Við getum alltaf bætt aðeins í. Það er ekkert sem segir að við getum ekki verið að búa til alls konar verkefni hingað og þangað. Umhverfisráðherra hefur t.d. fjallað mikið um matarsóun. Ég er algerlega sammála því sem hún er að gera þótt mér finnist t.d. að það mætti taka það skref, sem væri kannski eitt það mikilvægasta í því vandamáli, að hreinlega banna að urða lífrænan úrgang. Það verði bara ekki í boði að fara með brauðin og allt dótið sem er útrunnið í plastinu og urða einhvers staðar. Það verði að fara í moltu þótt það kosti eitthvað. Þá er hvati fyrir verslunina að minnka sóunina og reyna að koma vörunum út og hafa skipulagninguna í betra lagi.

Þetta er stuttur tími. Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja nema ég er ánægð með samninginn og mundi vilja að við tækjum róttækari skref. Ég upplifi það ekki þannig að það sé ekki hægt, að við getum ekki hvenær sem er sagst ætla að taka þetta af enn meiri krafti. Ný verkefni geta komið upp. Við þurfum líka að taka umræðuna um lífsstílinn. Þurfum við öll þessi föt, öll þessi ferðalög, húsgögn? Við erum svolítið að kaupa og henda eða gefa í Rauða krossinn, þannig menning er í gangi. Ég er mjög ánægð þegar ég fylgist með ungu fólki í dag sem hugsar um hvaða áhrif t.d. kjötneysla hefur, hvað landbúnaðurinn veldur í sumum tilfellum skaða og hvernig er hægt að velja landbúnaðarvörur sem eru betri en aðrar og vera meðvitaður um val sitt. Ég verð bjartsýn þegar ég fylgist með unga fólkinu. Mér finnst það standa sig betur en við í að axla ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni.