145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Því ber að fagna að þetta mál sé komið fram. Það er gleðiefni að þjóðir heimsins virðast ætla að taka málið alvarlega. Eins og hv. þingmaður nefndi áðan er erfitt að setja það þannig fram að fólk vilji tala um það jafn mikið og þyrfti.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við séum þegar komin yfir hættumörkin. Ég hygg að við munum lenda í framtíðinni í mjög miklum loftslagsbreytingum alveg sama hvað við gerum úr þessu. Jafnvel þótt við hættum að brenna olíu og kolum í dag, allur heimurinn samstundis, held ég samt að við lendum óhjákvæmilega í þó nokkuð miklum ógöngum. Þess vegna finnst mér að ofan á þessi annars ágætu áform þurfi þjóðir heimsins einnig að fara að velta alvarlega fyrir sér hvernig þær ætli að bregðast við þeim ógöngum sem fram undan eru.

Það er meira en að segja það. Loftslagið er flókið. Það er með flóknari kerfum sem menn stúdera og þess vegna er erfitt að spá fyrir um nákvæmlega hvað gerist. Reyndar er það ein af áskorununum, ekki bara það að eitthvað muni breytast á ákveðinn hátt, því að það er ekki í sjálfu sér vandamál ef það gerist nógu hægt og ef það er nógu þekkt fyrir fram hvað mun gerast. Vandinn er að við vitum ekki nákvæmlega hvað mun gerast og það mun líka gerast miklu hraðar en samfélög heimsins hafa tök á að bregðast við. Það hefur síðan að sjálfsögðu áhrif á pólitík heimsins, samskipti landa, það má búast við ýmsum hagsmunaárekstrum sem voru ekki fyrirséðir. Ég hygg að það muni reyna mjög mikið á samskipti landa sem varða ekki bara olíu- og orkunotkun heldur einnig hluti eins og mat og matarframleiðslu og hreinlega pláss, hvar eigi að búa vegna þess að ef þessar breytingar verða mjög hraðar er hætt við að svæði sem hægt er að nýta í dag verði ónýtanlegt og öfugt. Það er ekki fyrirséð hvernig það mun fara. Mannskepnan er alveg sérstaklega lagin við að finna sér ágreiningsefni og berjast mjög harkalega um þau.

Áskorun 20. aldarinnar var spurningin um hvort mannkyn lifði af gereyðingarvopnin, uppfinningu kjarnorkuvopna og fleira í þeim dúr. 20. öldin einkenndist af miklum ótta. Þau sem hlustuðu á pönktónlist og voru uppi á pönktímabilinu lýsa gjarnan hvernig andrúmsloftið var fullt vonleysis. Fólk gerði hreinlega ekki ráð fyrir að það næði gamals aldri því að heimurinn yrði farinn fjárans til fyrir þann tíma. Mér finnst skrýtið að upplifa ekki sama ótta gagnvart þessum vanda.

Að því sögðu þá komumst við í gegnum 20. öldina þrátt fyrir allt þó að vissulega séu enn hættur til staðar, við sjáum t.d. enn ágreining milli Rússlands og Bandaríkjanna sem fer stigvaxandi samkvæmt öllu því sem ég þekki til í þeim efnum. Það eru ýmis hættumerki víða í heiminum. Samt sem áður má ekki gleyma að við höfum ekki einungis þessa tilhneigingu til að fara í stríð heldur líka mikla burði til að komast yfir slíkar áskoranir. Ég trúi því að hið sama eigi við um loftslagsbreytingarnar. Spurningin er hversu mikill skaðinn verður og hvernig okkur tekst ýmist að fyrirbyggja hann eða bæta fyrir hann með einhverjum hætti í framtíðinni. Þótt vissulega sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur verðum við líka aðeins, og reyndar svolítið mikið, að líta fram hjá því hversu erfitt þetta komi allt til með að vera og velta fyrir okkur hvað við getum gert til að mæta breytingum framtíðarinnar. Þar hygg ég að eitt mikilvægasta svarið felist í tæknibreytingum. Ég held að við nálgumst óðfluga það tímabil þar sem hreinlega einhvers konar stjórn yfir veðurfari, hversu mikil sem hún getur svo sem verið, verði hluti af lífi mannkynsins á jörðinni.

Við erum orðin vön því að vera úti um alla plánetuna, við erum vön því að geta ferðast frekar auðveldlega á milli landa þrátt fyrir allar þær náttúrulega hindranir sem eru til staðar, fjöll og sjó, hita og kulda og allt þar á milli. Við erum dýrategund sem lenti á tunglinu, gekk á tunglinu. Og það er vel hugsanlegt að við göngum einn daginn á Mars sem er næsta pláneta. Þegar maður fer að ræða slík mál er fólk fljótt að líta svo á að það séu einhverjir draumórar eða komi sér ekki við eða séu einhver gæluverkefni mannkyns. En við megum ekki gleyma því að við erum sú dýrategund sem hefur komist yfir ótrúlegar áskoranir. Það er ekki trúlegt, maður hefði ekki trúað því fyrir 200 árum að manneskja mundi ganga á tunglinu. En við gerðum það samt. Sömuleiðis hefði fólk sennilega ekki trúað því að við gætum haft það mikil áhrif á loftslagið að við mundum hugsanlega stofna okkar eigin tilvist í hættu. En við gerðum það samt. Sömuleiðis hefði fáum dottið í hug að við mundum finna upp vopn eins og gjöreyðingarvopn á 20. öldinni. Við gerðum það samt. Og enn færra fólki hefði dottið í hug að við mundum lifa það af í svo langan tíma að hafa slík vopn í höndum ansi margs heldur brjálaðs fólks. Við gerðum það samt, enn sem komið er.

Ég held að þótt við eigum vissulega og hljótum að hafa áhyggjur af þessu megum við ekki gleyma því hvað við erum. Við erum ekki bara dýrategund sem ætlar að eyðileggja þessa jörð. Við erum líka dýrategund sem ætlar að komast af á henni, dýrategund sem getur tekist á við svona áskoranir. Við eigum að gera það og gera það full sjálfstrausts, gera það og trúa því að það sé mögulegt, því að það er það ef við trúum því. En það er ekki mögulegt ef við trúum því ekki.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Ég fagna þessu máli. Ég ítreka að við þurfum að gera miklu meira. Við tökum þetta ekki jafn alvarlega og við þurfum að gera. En við eigum að líta fram á veginn með þá von í brjósti að við getum komist yfir þessa áskorun og við þurfum að horfa ekki bara eina eða tvær aldir fram í tímann heldur til þúsunda ára.