145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina nokkrum spurningum til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Þetta er allyfirgripsmikið efni þó svo að það frumvarp sem við ræðum hér snúi einungis að lífeyrisþegum. Eins og heyra mátti varð hæstv. ráðherra hafa sig alla við til þess að koma öllu því að sem hún vildi segja um málið, og hafði hún þó til þess 30 mínútur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í töflurnar sem eru á bls. 31 í athugasemdum með frumvarpinu, fylgiskjal sem kemur frá velferðarráðuneyti og skrifstofu hagmála og fjármála, en það er kostnaðarumsögn með frumvarpinu. Það er nú oft í slíkum köflum sem lesa má með hvað skjótvirkustum hætti hverjar raunverulegu breytingarnar eru. En samkvæmt töflunni á bls. 31 sé ég ekki betur en að með frumvarpinu muni lífeyrisgreiðslur þeirra sem eru á strípuðum lífeyri frá almannatryggingakerfinu ekkert hækka. Ég vildi vera alveg viss áður en lengra er haldið hvort það sé ekki örugglega réttur skilningur hjá mér; þeir sem eru á strípuðum lífeyri hækka ekkert með þessu frumvarpi.