145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Við hefðum nú þurft meiri tíma til þess að fara betur yfir þetta en við þurfum auðvitað að sætta okkur við þingsköpin eins og þau eru, fyrir utan að þetta er 1. umr.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra að einfaldri spurningu: Hversu stór hluti af einfölduninni er þetta frumvarp? Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að við gætum búist við fleiri frumvörpum í framtíðinni til þess að einfalda kerfið enn þá meira. Ég spyr vegna þess að ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að stærsta vandamálið við almannatryggingakerfið sé flækjustigið, það sé hreinlega stærsta vandamálið vegna þess að réttindaverndin er svo erfið, notendur eiga mjög erfitt með að átta sig á réttindum sínum og erfitt með að berjast fyrir þeim í kjölfarið, óháð því hvernig reglurnar eru. Það er áður en maður kemur einu sinni að umræðunni um það hvernig reglurnar ættu að vera.

Ég tek eftir því að þó að hlutirnir séu vissulega einfaldaðir í frumvarpinu þá lítur það í fljótu bragði ekki út fyrir að vera sú einföldun sem þarf. Mér finnst í stuttu máli þurfa miklu meiri einföldun. Þess vegna velti ég fyrir mér hvað við getum búist við að komi fram í framtíðinni til þess að einfalda þetta meira. Ég held nefnilega að ef einhver notandi almannatryggingakerfisins les þetta frumvarp þá taki hann eftir hlutum sem virðast í fljótu bragði ekki endilega einfalda málið gagnvart notandanum, en einfaldar kannski málið fyrir lögmenn og okkur sem sitjum á Alþingi eða hæstv. ráðherra. Eitt dæmi er b-liður 7. gr. sem sennilega einfaldar hlutina fyrir okkur en lítur út fyrir að vera flókinn og meira yfirþyrmandi gagnvart notandanum. Ég veit að notendur eiga erfitt með að átta sig á því hvernig allt saman virkar.

Mér finnst því að það hljóti að vera meira í uppsiglingu. Mig langar að spyrja almennt hvort meira sé í uppsiglingu.