145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:51]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og ég sagði í ræðu minni þá tel ég að þetta verði ekki síðasta breytingin sem við gerum á almannatryggingunum, ég vona svo sannarlega ekki. Ég nefni spurninguna sem sneri að öryrkjunum, ég hef verið tilbúin að gera allt sem ég mögulega get til þess að menn nái samkomulagi. Það er hins vegar aldrei þannig að allir geti fengið allt sem þeir vilja, það þurfa allir að gefa eitthvað eftir þegar kemur að því að reyna að ná málamiðlunum. Það náðist í nefndinni um breytinguna sem sneri að eldri borgurum. Hagsmunasamtök eldri borgara hafa sagt: Þetta er mikilvægur áfangi. Við viljum fá þetta fram. Við munum síðan að sjálfsögðu berjast fyrir því að draga enn frekar úr skerðingum, að hækka bæturnar og þá sé horft til framtíðar, en menn töldu að kerfisbreytingin væri svo mikilvæg að menn voru sammála um að hún þyrfti að fara í gegn, það þyrfti að afgreiða hana og við ættum að geta náð saman um það.

Það er líka eins og hv. þingmaður nefndi, við vitum að það getur oft verið erfitt að skilja frumvörpin sem við fáum hér. Hv. þingmaður benti á b-lið 7. gr., sem hljómar svona:

„Í stað orðsins „skerða“ í 2. málsl. kemur: sbr. 8. tölul. 2. gr., sbr. einnig 3. mgr. 16. gr., lækka.“

Hvað þýðir þetta?

Við höfumar, eins og ég nefndi líka í ræðu minni, unnið allt þetta kjörtímabil að heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Hv. þingmaður þekkir aðeins hvernig sú vinna hefur gengið fyrir sig, við tökum fyrirliggjandi löggjöf og endurvinnum greinarnar þannig að þegar einstaka greinar verða komnar inn þá lesum við í raun heildarlöggjöfina og það mun hjálpa til við að skilja. Það eru líka ákvæði sem þingið hefur samþykkt sem munu hjálpa til við þetta, (Forseti hringir.) þ.e. um rétt fólks á að fá betri upplýsingar, réttar upplýsingar, alveg eins og þingflokkur hv. þingmanns (Forseti hringir.) hefur lagt mikla áherslu á, m.a. með ósk um skýrslur.