145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um það í eina sekúndu að hæstv. ráðherra vilji gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að einfalda þetta. Ég held að það séu allir í sama liði þegar kemur að þeim málaflokki. En það er ærið verkefni, það er mjög stórt. Ég eins og aðrir þingmenn fæ reglulega kvartanir frá notendum almannatryggingakerfisins þar sem er kvartað undan ýmsu. Þegar ég hef reynt að átta mig á málunum hef ég rekist á þetta ofboðslega flækjustig og þótt við finnum kannski út úr því hér þá er það skilningur notendanna sjálfra sem ég hef miklu meiri áhyggjur af. Við höfum sérfræðinga til þess að tala við okkur á nefndarfundum en notendur kerfisins eiga einfaldlega ekki kost á því. Þeir hafa starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins sem sjálfsagt er allt af vilja gert til þess að aðstoða, en notendur eru auðvitað ekki í þeim aðstæðum að geta notið þeirrar sérfræðiþjónustu sem við höfum til þess að fá útskýringar á því hvernig þetta virkar allt saman. Ég átta mig líka á því að það fá ekki allir allt sem þeir vilja, það er ekkert við því að gera.

Ég vil halda því til haga að mér líst ágætlega á þetta frumvarp eins og ég skil það núna. Auðvitað erum við í 1. umr. og maður á eftir að skoða málið betur. Mér finnst bráðabirgðaákvæðið sérstaklega gott, mér finnst það fyrirbyggja eða virka a.m.k. sem ákveðið öryggisnet. En á sama tíma get ég ekki að því gert að mér líður pínulítið eins og hv. 8. þm. Reykv. n. sem fór inn á að það er ansi hætt við því að notendur upplifi þetta sem ákveðin vonbrigði vegna þess að frumvarpið lítur ekki út fyrir að vera svo mikil einföldun miðað við það sem þörf er á. Það er þess vegna sem ég hegg eftir þessu. Ég veit að hæstv. ráðherra vill ólm einfalda þetta meira.

Ég veit ekki hvort ég get spurt eitthvað nánar út í þetta, en ég velti fyrir mér: Er hægt að setja upp eitthvert kerfi sem notendur geta notað til að reikna út réttindi sín til þess að reyna að „slást við kerfið“ í baráttu sinni?