145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[10:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil segja strax hvað varðar síðustu spurninguna sem fram kom, hvort einhvers konar skoðun eða umræða hafi farið fram í ráðuneyti mínu um þá stöðu sem uppi er á fjölmiðlamarkaði, þá er svarið já. Í sumar kallaði ég til mín til fundar forustumenn ljósvakamiðlanna þar sem þeir gerðu mér skýra grein fyrir þeirri stöðu sem þeir telja að blasi við ljósvakamiðlunum og var mjög í samræmi við þá lýsingu sem hv. þingmaður gaf hér á þeim áskorunum og þeim miklu breytingum sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði á undanförnum missirum og árum.

Það er alveg hárrétt að um er að ræða flókna stöðu, m.a. vegna þess hversu fyrirferðarmikið Ríkisútvarpið er á auglýsingamarkaði. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að á Norðurlöndunum eru ríkisútvörpin þar ekki á auglýsingamarkaði og því ekki að undra að þeir sem eru í forustu fyrir fjölmiðlafyrirtækin bendi á þá stöðu og spyrji hvernig ríkisvaldið hyggist beita sér, til hvaða ráða það vilji grípa til að jafna þá stöðu.

Nú veit ég að gerðar hafa verið skoðanir á einmitt skattumhverfi fjölmiðlanna og liggja fyrir um það skýrslur. En ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem við þurfum að gera, og ætti að vera hægt að ná fram strax þverpólitískri samstöðu um, er að við notum núna næstu mánuðina til að greina nákvæmlega þessa stöðu, að þingið til dæmis, og ég varpa því kannski hér til hv. þingmanns, þeirri hugmynd, að þingið skipi starfshóp, þverpólitískan, sem hafi þriggja mánaða tíma til þess að skila greiningu akkúrat á þeim þáttum sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni, þ.e. breytingum á auglýsingamarkaði, breytingum á tækni, sem gerir það að verkum að staðan er að þróast með þeim hætti sem hér er um að ræða.

Á sama tíma vil ég segja að í mínu ráðuneyti er verið að skoða sérstaklega þætti (Forseti hringir.) sem lúta að starfsumhverfi ljósvakamiðlanna þar sem um er að ræða t.d. þýðingarskyldu (Forseti hringir.) og aðra slíka þætti sem nauðsynlegt er að skoða til samræmis við þær tæknibreytingar sem orðið hafa á þessum markaði.