145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

Parísarsamningurinn.

[10:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Það er gaman að geta rifjað upp þær umræður sem áttu sér stað í gær. Umhverfismál og þannig loftslagsmál eru mjög víðfeðm og snerta flesta þætti mannlegs lífs. Það er ekki síst daglegt líf okkar og hegðun sem hefur þar mikið að segja. Þess vegna finnst mér afskaplega ánægjulegt að á morgun verður opnuð sýning í Perlunni þar sem bæði Fenúr og Umhverfisstofnun ásamt fjölmörgum frjálsum félagasamtökum á landinu starfa saman gegn sóun á öllum sviðum. Ég hvet alla til að kom þar. Það er stór hluti af því að við tökum okkur öll saman um að skoða hvernig við hegðum okkur, hvert og eitt. Það eru margir hlutir sem þar eru og að þessu hefur verið unnið í ráðuneytinu.

Saman gegn sóun er verkefni sem unnið hefur verið í ráðuneytinu og tengist m.a. því að draga úr matvælasóun. Við höfum unnið að Saman gegn sóun til að reyna að draga úr plastsóun og í því sambandi hafa m.a. verið fullgiltar þingsályktanir sem héðan hafa komið. Sannarlega eru í sóknaráætlun okkar í loftslagsmálum áform um að rækta meira grænmeti, yrkja meiri skóg. Við stöndum mjög framarlega í því og við eigum mikið land þar sem við getum svo sannarlega sett niður bæði grænmeti og skóg til þess að binda kolefni. Á móti reynum við að fylla upp í skurði, eins og hv. þingmaður gat um. Það er verkefni sem Landgræðslan sinnir og hún sinnir ekki bara einu verkefni, þau eru nokkur verkefnin hjá Landgræðslunni varðandi það. Við erum að reyna að fá allt umhverfið með okkur og hafa fjölmargir komið að þessu, eins og forsetaembættið, biskupsembættið o.fl. Biskupinn tók þetta fyrir. Það er eðlilegt að gera eitthvað í þessum málum, m.a. í Skálholti þar sem forsetinn var með mér í júlí sl.