145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[10:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Nú þegar síga fer á seinni hlutann á líftíma núverandi ríkisstjórnar er rétt að gefa ráðherrum tækifæri til þess að líta yfir farinn veg og gefa okkur innsýn í framtíðarsýnina í einstökum hlutum þeirra málaflokka sem þeir hafa haft forustu um að sinna. Við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra höfum allnokkrum sinnum rætt stöðu íslenskrar tungu og sú sem hér stendur hefur lagt mikla áherslu á að ná um það þverpólitískri áherslu að við styðjum íslenska tungu í stafrænum heimi. Það hefur verið bæði með þingsályktunartillögum, með tillögum við fjárlagaafgreiðslu og við fleiri tilefni.

Hæstv. ráðherra hefur í þessum samtölum við mig og við fleiri tilefni ávallt lýst miklum skilningi á mikilvægi þess að búið sé vel að íslenskri tungu þegar ljóst þykir að hún á að sumu leyti undir högg að sækja. Um er ræða einn kjarnann í því að vera samfélag á þessari eyju. Hæstv. ráðherra talaði um það síðast þegar við í stjórnarandstöðunni gerðum tillögu um að auka verulega í í fjárlagaumræðunni og hæstv. ráðherra greiddi atkvæði gegn því, að hann sæi fyrir sér aðkomu atvinnulífsins í þessum efnum.

Ég spyr hæstv. ráðherra, því nú fer að styttast í það að hann fari að pakka saman í mennta- og menningarmálaráðuneytinu: Hvernig ætlar hann að skilja við þetta mál?