145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

LÍN-frumvarpið og jafnrétti til náms.

[11:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. menntamálaráðherra varðandi það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu, LÍN-frumvarpið, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég tel það vera grafalvarlega atlögu að jafnrétti til náms af hálfu stjórnvalda ef frumvarpið verður að veruleika og það komi í veg fyrir að fólk á öllum aldri hafi möguleika til að njóta hæfileika sinna og mennta sig óháð efnahag og búsetu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að allir fái styrk burt séð frá því hvort þeir þurfi á honum að halda eða ekki. Við þekkjum að fólk af landsbyggðinni sem þarf að leigja á höfuðborgarsvæðinu verður fyrir miklum útgjöldum sem fylgja því og hárri framfærslu. Auk þess hækka vextirnir þrefalt. Tekjutengingin er felld niður. Það er verið að þyngja greiðslubyrði á tekjulágt fólk, t.d. hafa konur oftar en ekki lægri laun að námi loknu. Þeir sem hafa lent í erfiðleikum og hafa ekki getað staðið skil á lánum og þurft að afskrifa þau hafa enga möguleika á að fá lán í framtíðinni. Námsaðstoð er takmörkuð við 50 ára aldur. Við vitum að vinnumarkaðurinn er þannig að fólk sem missir vinnu um miðjan aldur á mjög erfitt með að fá vinnu aftur og þá er verið að hefta möguleika þess á að fá lán til þess að afla sér menntunar til þess að hafa meiri sóknarfæri á vinnumarkaði. Svona mætti áfram telja.

Ég vil spyrja ráðherra hvort hann hafi ekki virkilega áhyggjur af því, ef þetta verður að veruleika, að lánasjóðurinn tryggi með þessu jafnrétti til náms og félagslegan jöfnuð. Ég vil spyrja ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeim hópum sem ég nefndi, tekjulágu fólki, konum, fólki utan af landi. Þessir hópar standi frammi fyrir ójafnrétti vegna þess að það er mikill aðstöðumunur milli þeirra og hinna sem búa á höfuðborgarsvæðinu og líka eftir tekjum. Ég vil líka spyrja hvort nokkur greining hafi farið fram áður en frumvarpið var lagt fram varðandi þessa hópa, konur, tekjulága, fólk utan af landi og námsmenn erlendis t.d.