145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

LÍN-frumvarpið og jafnrétti til náms.

[11:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég hef fylgst með mörgum umsögnum sem hafa komið um þetta mál. Mér hefur fundist nokkuð vanta upp á frá ýmsum umsagnaraðilum tölulegar greiningar á áhrifum frumvarpsins og alveg sérstaklega samspili frumvarpsins og þessa kerfis við aðra aðstoð sem ríkið veitir sem nýtist námsmönnum. Ég hef tekið eftir því t.d. í umræðu um húsaleigu, kostnað við húsaleigu. Ég hef séð gagnrýni á það atriði en henni hefur ekki verið fylgt eftir með útreikningum þar sem skoðuð hafa verið einstök dæmi og staða námsmanna sett upp og reiknað út hver niðurstaðan er.

Staðreynd málsins er þessi: 85% nemenda sem núna taka námslán munu fá lægri afborgunarbyrði gangi þetta kerfi fram. Mikill meiri hluti nemenda við stærsta háskóla okkar, Háskóla Íslands, og t.d. við Háskólann á Akureyri eru konur. Sú lága greiðslubyrði eða lægri greiðslubyrði mun nýtast þeim hópi.

Hv. þingmaður nefndi að henni fyndist óréttlátt að allir fengu sama styrk. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti, einnar spurningar. Í frumvarpi sem núverandi formaður Vinstri grænna lagði fram um lánasjóðinn var gert ráð fyrir jöfnum styrk til allra þar sem styrkurinn var reiknaður sem hlutfall af framfærslu námsmanna og síðan dreift með jöfnum hætti. Með öðrum orðum, nákvæmlega sama hugsun. Var hv. þingmaður sammála þeirri aðferðafræði en er á móti því að styrkurinn sé veittur jafnt með þeim hætti og gert er í þessu frumvarp?

Það skiptir öllu máli að hv. þingmaður svari þessu vegna þess að ég hef þá trú að hér sé um að ræða mjög mikilvægt mál sem eigi að vera hafið (Forseti hringir.) yfir flokkspólitískt tog. Ég veit (Forseti hringir.) að hv. þingmaður þekkir það frumvarp sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili þar sem (Forseti hringir.) var gert ráð fyrir styrkjakerfi og það (Forseti hringir.) kerfi gekk út á nákvæmlega sömu hugsun; (Forseti hringir.) að styrkurinn væri jafn, óháður fjölskyldustærð, (Forseti hringir.) óháður fjölskylduaðstæðum, óháður tekjum. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að hv. þingmaður geri grein fyrir þessu.