145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

LÍN-frumvarpið og jafnrétti til náms.

[11:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var af ástæðu sem ég spurði hv. þingmann. Í því frumvarpi sem var til umfjöllunar á síðasta kjörtímabili segir, (Gripið fram í.)virðulegi forseti, í greinargerð:

„Fjárhæð styrksins“ — sem þá var lagt upp með — „er miðuð við ákveðið hlutfall af grunnframfærslu sjóðsins á hverjum tíma, eða 25%. Hér er því ekki miðað við það lán sem hver námsmaður tekur heldur er um að ræða sömu styrkupphæð fyrir alla.“

Sömu styrkupphæð fyrir alla. Vinstri grænir lögðu til á síðasta kjörtímabili að styrkjakerfið sem yrði tekið upp yrði þannig að það væri sami styrkur fyrir alla. (Gripið fram í.) Það sem ég, virðulegi forseti, hef gert er að leggja til nákvæmlega sama hlut (Gripið fram í.) og þá er sagt: Það er ósanngjarnt að spyrja um þetta, ósanngjarnt að inna hv. þingmann eftir skoðuninni á einmitt þeim þætti málsins sem hv. þingmaður hafði mjög þung orð um. Hvernig stóð á því að hv. þingmaður reifaði ekki þessar skoðanir þegar það frumvarp var lagt fram með nákvæmlega sömu hugsun, sömu styrkupphæð til allra óháð fjölskylduaðstæðum? Hvernig má það vera, virðulegi forseti?

Það sem ég er að segja (Forseti hringir.) er þetta: Það liggur fyrir að þetta frumvarp mun létta afborganir af námslánum hjá 85% (Forseti hringir.) þeirra sem taka námslán. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það eru akkúrat þeir sem þurfa á því að halda (Forseti hringir.) og ég bendi á það sem hefur gleymst oft í umræðunni, það skiptir máli að horfa á námslánakerfið (Forseti hringir.) í tengslum við aðra aðstoð sem ríkið veitir til námsmanna.(Gripið fram í.)