145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur kærlega fyrir að vekja máls á þessum mikilvæga málaflokki, byggðamálunum. Ég hef alltaf haft mjög djúpa sannfæringu og skýra sýn á það hvernig byggðamálin eiga að vera. Meginrökin fyrir því að við eigum að reka hér öfluga og skapandi byggðastefnu eru þau að það er Íslandi og íslensku samfélagi nauðsynlegt að landið allt sé í byggð. Það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt, ekki bara fyrir landsbyggðina heldur líka fyrir höfuðborgarsvæðið, að það séu kraftmikil og verðmætaskapandi samfélög hringinn í kringum landið.

Það er að mínu viti mikilvægt að við segjum hlutina með skýrum hætti. Byggðastefna á ekki að hverfast um einhverja ölmusu ríkisins til byggðanna heldur er byggðastefna þvert á móti tækifæri og tæki fyrir íslenskt samfélag til að auka verðmætasköpun og framfarir.

Ég ætla að fara stuttlega yfir þau þrjú verkfæri sem verið hafa í þróun til þess að leggja fram byggðastefnu og fylgja henni eftir og þannig reyna að tryggja búsetu sem víðast, eins og hv. þingmaður nefndi hér réttilega.

Í fyrsta lagi er það stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál. Í um eitt ár hefur verið starfandi stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál sem skipaður er fulltrúum allra ráðuneyta og fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Áheyrnarfulltrúar eru frá landshlutasamtökum sveitarfélaga og Byggðastofnun. Stýrihópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál séu öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun, og markmiðið er að fá öll ráðuneytin til að koma fram sem ein heild í byggðamálum. Mikilvægt er að samhæfa stefnu ráðuneyta er snerta byggðamál beint eða óbeint. Ég fer, eins og allir vita, með málefni byggðamála í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en eins og við vitum getur stefna og áætlunargerð í öðrum ráðuneytum haft mjög mikil áhrif á þróun byggðar. Þess vegna er stýrihópurinn mjög mikilvægur til að passa upp á að verið sé að framfylgja einni stefnu. Stýrihópurinn skilar einnig árlegri greinargerð til ráðherra um framkvæmd sóknaráætlana og er ríkisstjórn til ráðgjafar í byggðamálum. Í maímánuði sl. ákvað ríkisstjórnin að fela stýrihópnum að móta skýrar verklagsreglur um umboð og starfshætti í málum er snerta byggðamál, svo sem undirbúning fjármálastefnu og fjármálaáætlana á sviði einstakra ráðuneyta og annarrar opinberrar stefnumótunar.

Við höfum lagt áherslu á að fulltrúar stýrihópsins upplýsi stjórnendur ráðuneyta ef talið er að fyrirhugaðar aðgerðir samræmist ekki stefnu stjórnvalda.

Í öðru lagi eru sóknaráætlanir landshluta. Þær byggjast á samvinnu stjórnvalda, Stjórnarráðsins, landshlutasamtakanna og sveitarfélaga á staðnum. Í sóknaráætlunum skal mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og eftir atvikum annarri opinberri stefnumótun.

Á síðasta ári var samþykkt nýtt verklag um gerð byggðaáætlunar og sóknaráætlana í lögum nr. 69/2015, og er mikilvægi þess að heimamenn hafi sem mesta aðkomu að byggðamálum lögfest. Sveitarfélögin sjálf fengu því meira forræði yfir byggðamálum. Staðbundin stjórnvöld hafa betri þekkingu á aðstæðum og viðhorfum svæðisins og eru í betri aðstöðu til að virkja heimamenn til þátttöku en þau stjórnvöld sem við teljum og segjum að séu miðlæg. Það finnst mér mjög mikilvægt og ég er því almennt hlynntur að heimamenn hafi meira um það að segja hvernig fjármunum sem beint er að þeirra svæði sé varið.

Ég undirstrika hér að þátttaka heimamanna í stefnumótun, áætlanagerð og verkefnastjórnun er grundvallaratriði til að ná betri árangri í byggðamálum.

Í þriðja lagi er það stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2017–2023. Tillaga til þingsályktunar um nýja byggðaáætlun fyrir árin 2017–2023 verður lögð fram á næsta þingi. Samkvæmt fyrrgreindum lögum, nr. 69/2015, hefur nýtt verklag við mótun byggðaáætlunar verið lögfest en helstu nýmælin í verklaginu eru aukið samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga og svo hefur almenningur getað sent inn tillögur á heimasíðu Byggðastofnunar. Sú byggðaáætlun sem nú er verið að vinna að nær til sjö ára í stað fjögurra ára. Það eru árin 2017–2023 sem eru undir.

Þeirri vinnu hefur miðað vel áfram og gert er ráð fyrir að Byggðastofnun skili ráðherra drögum að nýrri áætlun til sjö ára mjög fljótlega.

Ekki liggur fyrir í smáatriðum á þessari stundu hverjar áherslurnar verða enda er samráði við atvinnulíf og skóla, sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra auk ráðuneyta og fleiri aðila ekki lokið. En mjög fljótlega eftir að ég tók við nýju embætti ráðherra byggðamála fól ég Byggðastofnun að útfæra hvernig beita mætti skattkerfinu í byggðalegum tilgangi eins og hefur gefið góða raun í nágrannalöndum okkar og er það mitt helsta innlegg í nýja byggðaáætlun.

Þær leiðir sem verið er að skoða eru m.a. að tryggingagjald lækki því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu, að minnka kostnað þeirra sem þurfa að ferðast langar leiðir til vinnu og að fella niður námslán á veikum svæðum þar sem vantar menntað fólk. Ég bind miklar vonir við þessar tillögur, ég vona að þær nái fram að ganga og að um þær muni ríkja sátt. Þetta eru tillögur sem þekkjast annars staðar.

Að lokum tel ég mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við sammælumst öll um að hraða uppbyggingu ýmissa innviða, svo sem í fjarskiptum, samgöngum og í raforkuöryggi, og að tryggja aðgengi að þjónustu hins opinbera í heilbrigðis- og menntamálum.