145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að vekja máls á þessu gífurlega áhugaverða og mikilvæga máli. Eins og staðan er núna eru ákveðnar byggðir hreinlega að leggjast í eyði, sérstaklega ef við horfum til Vestfjarða. Þar eru byggðir sem eru liggur við að hverfa. Það er gífurleg fólksfækkun þar. Sú staða hefur náttúrlega verið lengi að fólk flytjist þaðan eitthvert annað þar sem er þjónusta, þar sem eru vegir, þar sem hægt er að sækja menntun. Þess vegna fannst mér einstaklega athyglisvert að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst vinna með öðrum ráðuneytum beint og óbeint, hvernig stefnur í öðrum ráðuneytum geta haft gífurlega mikil áhrif á stöðu byggðar í landinu, og þá sérstaklega í menntamálum.

Nú er lag og hefur verið kallað eftir því, meðal annars frá þeim byggðasamtökum sem eru til staðar í landinu, að norska leiðin verði farin í námslánakerfinu. Það hefur reynst vel þar og virðist vera nauðsyn. Þessir krakkar, stúdentar, fara oft snemma að heiman, 16 ára, tvítugir, og þurfa að flytja sig um set. Þegar maður er búinn að vera í burtu frá heimabæ sínum í tíu ár, af hverju á maður að koma til baka? Hvað er þar sem dregur mann til baka? Ef fjölskyldan er jafnvel líka flutt? Við þurfum einhvern veginn að takast á við þann raunveruleika að það þarf að vera eitthvað til að hverfa til, eitthvað sem er heima. Þegar allir eru farnir, þegar er enginn til staðar, engin skemmtun, t.d. enginn bar eða leikhús eða listir, er ekki mikið til að snúa til.