145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:29]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mikilvæg. Byggðastefna hefur hingað til, ekki bara hjá þessari ríkisstjórn heldur ríkisstjórnum á undan, hjá öllum gömlu flokkunum, snúist um þrennt. Hún hefur snúist um sjávarútveg, landbúnaðarmál eða landbúnaðarstefnu og stóriðju. Mér finnst mikilvægt að við skoðum þessa þætti og viðurkennum það bara hvernig okkur hefur mistekist með þessum áherslum að viðhalda byggð í landinu. Með þessum þremur áherslum hefur okkur ekki tekist að ná tilætluðum árangri. Til að ná markmiðum um byggðastefnu þurfum við að hugsa þetta upp á nýtt. Þess vegna finnst mér mjög eftirtektarvert þegar hæstv. ráðherra talar hér um heimamenn, sóknaráætlanir landshluta og annað þar sem ég er sammála honum um og tek undir það, en það er eftirtektarvert að skoða hvað ríkisstjórn hans hefur gert í þeim málum. Hún hefur slegið sóknaráætlanir landshluta út af borðinu. (Gripið fram í.) Hún hefur minnkað það svo um munar. Þetta veit auðvitað fólk um allt land, þetta vita sveitarstjórnarmenn um allt land og hafa gagnrýnt mjög.

Við þurfum að hugsa byggðamál upp á nýtt. Það gengur ekki að veita ívilnanir til stóriðju og vonast til þess að það reddi byggðum um landið, að vonast til þess að kvótar haldi sér bara svona einhvern veginn (Forseti hringir.) í hinum ýmsu þorpum. Það gengur ekki nógu vel og við þurfum að hugsa byggðamálin upp á nýtt.