145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Byggðamál snerta alla. Því er það mikilvægt skref sem stigið var þegar við fórum frá því að hafa byggðamál eingöngu á hendi ríkisins og sveitarfélög, þar með talin höfuðborgin, komu að byggðamálum sem virkir þátttakendur. Það er mikilvægt að líta á landið allt sem eina heild og öll byggðarlög sem mikilvæga hlekki í öflugu samfélagi. Ríkisstjórnin hefur stigið mjög ákveðin skref á þessu kjörtímabili til jöfnunar búsetuskilyrða. Má þar nefna aðgerðir til að jafna raforkukostnað til húshitunar og nú er átakið Ísland ljóstengt komið á fullan skrið.

Hæstv. forseti. Nú þegar sér þriðjungur þeirra sem vantar ljósleiðaratengingu fram á að fá lausn sinna mála á næstu mánuðum og áætlað er að ljúka verkinu öllu 2020. Þegar þessi mál eru komin í gott lag getum við í raun talað um möguleika á störfum án staðsetningar. Næst þarf að gera átak í betri tengingum við flutningskerfi raforku. Þetta ásamt samgöngumálum er í raun grunnur að allri byggð í landinu og á að vera eitt af meginverkefnum stjórnvalda til framtíðar.

Hæstv. forseti. Nú er nýtt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna til umfjöllunar í þinginu og við þá umfjöllun er mikilvægt að skoða þau tækifæri sem felast í kerfisbreytingunni sem þar er lögð til. Að koma á hvatakerfi í gegnum skattkerfið í endurgreiðslu námslána. Það mætti koma á hvötum fyrir háskólamenntað fólk til að setjast að á svokölluðum veikum svæðum á landsbyggðinni. Væri ekki líka eðlilegt að jöfnunarstyrkur vegna búsetu stæði nemendum í grunnnámi á háskólastigi til boða? Væri það ekki eðlilegt framhald af styttingu framhaldsskólans?

Að byggðamálum þarf að vinna jafnt og þétt. Þau þurfa að fléttast inn í alla vinnu stjórnvalda. Því er það fagnaðarefni að nú er verið að vinna byggðaáætlun eftir vinnulagi sem hefur verið í nokkurra ára þróun og var lögfest árið 2015. Nú erum við með heildarlög um byggðaáætlanir og sóknaráætlanir. Byggðastefna snýst um tækifæri fyrir íslenskt samfélag til að auka verðmætasköpun og styðja við framfarir.