145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þessa mikilvægu umræðu og get jafnframt sagt að ég fagnaði mjög þeim áherslum sem hæstv. byggðamálaráðherra lagði í innleggi sínu. Ég vil sérstaklega benda á þá þætti er hann nefndi varðandi stýrihóp Stjórnarráðsins um samþættingu á milli ráðuneyta og hvernig ýmsar stefnur í mörgum málaflokkum þurfa að tvinnast saman til þess að byggja undir öfluga byggðastefnu. Það er nákvæmlega kjarni málsins sem hæstv. byggðamálaráðherra talaði um hér, að byggðastefna okkar birtist í öllum málaflokkum. Þess vegna skiptir máli að við höldum utan hana og notum þau stýritæki sem þingið og stjórnvöld hafa á hverjum tíma. Ég ætla að tilgreina hér hluti eins og ríkisfjármálaáætlun og ný fjárreiðulög ríkisins. Í þeirri löggjöf var sérstaklega rætt um hvernig við ættum að greina fram komin fjárlög á hverjum tíma á grundvelli málefna byggðanna.

Það er margt mjög vel gert í byggðamálum á Íslandi og við skulum ekki tala þannig um landsbyggðina að þar sé hörmulegur samdráttur og mikið volæði. Þó að á einstaka stöðum séu verkefni til að ráðast á og vinna með skiptir einfaldlega máli hvernig stefna okkar birtist, t.d. í því þegar við reisum nú við fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu, fjárveitingar til háskólakerfisins o.s.frv. Þá veltir maður fyrir sér hvaða stýritæki og mælikvarða við getum notað þar. Ég hef þess vegna gælt við þá hugmynd þegar við tölum um málaflokk háskólans, svo ég nefni hann sérstaklega sem dæmi, hvort ekki ætti þá að vera ákveðið hundraðshlutfall af þeim fjárveitingum sem fari út á landsbyggðina. Að sama skapi má nefna heilbrigðismál og slíka hluti, því að það getur ekki verið gæfuspor, ef við nefnum heilbrigðismál í þessu samhengi, að við bætum ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu og eflum heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni á sama tíma og við bætum hana á suðvesturhorninu. (Forseti hringir.) Ég get nefnt fjölmörg dæmi í þeim efnum. En þetta er ágæt umræða og ég þakka fyrir hana.